Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:54]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég býð hv. þingmann velkominn hér á þingið. Það var áhugavert að hlusta á ræðu hv. þingmanns. Ég var ekki sammála mörgu en þó get ég tekið undir síðustu athugasemdina um hversu undarlegt það er að nú þegar málið er í 2. umr. birtist hæstv. forsætisráðherra einhvers staðar og tilkynni um það að málið muni taka einhverjum breytingum sem við vitum ekkert hverjar verða eða hvaða meðferð fái hér í þinginu. Það er vægast sagt óvenjulegt og undarlegt.

Ekki var annað að heyra á hv. þingmanni en að hann hafi ekki áhyggjur af því að það sé eitthvert hámark á það hvað Ísland getur gert í þessum málaflokki, hversu mörgum við getum tekið á móti. Ég er auðvitað fullkomlega ósammála hv. þingmanni um það. Einnig þótti mér allsérstakt að vísað væri í jóladagatal Ríkisútvarpsins og þann áróður sem þar fór fram sem einhvers konar staðfestingu eða vísbendingu um að hann ætti rétt á sér. Framganga Ríkisútvarpsins í þessu máli var að mínu mati mjög óviðeigandi.

Ástæðan fyrir því að ég bað um að veita hv. þingmanni andsvar var sú að hann ræddi um stjórnarskrána og þau réttindi sem hún tryggir. En telur hv. þingmaður að stjórnarskrá Íslands nái yfir alla íbúa heimsins, ekki bara íslenska ríkisborgara heldur að hún tryggi öllum átta milljörðunum, eða rúmlega það, á jörðinni þau réttindi sem þar er getið um?