Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:59]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Um þetta myndi ég segja: Ríkisútvarpið er ekki almenningur þótt sums staðar birtist það viðhorf þar að ríkið það sé ég, eða það sé það. Oft og tíðum fer sú stofnun sínar eigin leiðir sem geta verið allólíkar viðhorfum almennings en látum það liggja á milli hluta. Ég ætla ekki að vera aðgangsharður við hv. þingmann en biðja hann einfaldlega að velta því fyrir sér hvort hann telji ekki eðli máls samkvæmt að því hljóti að vera einhver takmörk sett við hve mörgum hælisleitendum og flóttamönnum Ísland getur tekið og hvort þessi risastóri málaflokkur, sem varðar líf og heilsu fólks, kalli ekki á einhvers konar forgangsröðun, að við veltum því fyrir okkur hvernig við komum að sem mestu gagni fyrir sem flesta þeirra sem eru í mestri neyð. Þessar tvær spurningar: Eru engin takmörk? Og í öðru lagi: Þurfum við ekki í ljósi stærðar vandans að forgangsraða til að möguleikar okkar nýtist sem flestum þeirra sem eru í mestri neyð?