Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Sú löggjöf sem við erum að vinna eftir í dag í málefnum útlendinga var samin á árunum 2014–2015. Lögin tóku síðan gildi árið 2016. Margt hefur breyst á þessum tíma og þessi málaflokkur er í raun síbreytilegur. Fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd hefur margfaldast á þessum tíma og það hefur komið fram í þessari umræðu. Það sama má segja um kostnaðinn fyrir ríkissjóð, hann hefur margfaldast og á síðasta ári stefnir hann í að vera u.þ.b. 10 milljarðar kr. Þegar málaflokkar eru síbreytilegir verður löggjafinn að fylgja því eftir með því að uppfæra lögin. Það höfum við ekki gert í þessum málaflokki. Það er hluti af því að hingað eru að koma margfalt fleiri hlutfallslega og sækja hér um hæli, eða alþjóðlega vernd eins og sagt er, heldur en t.d. á Norðurlöndunum. Þessar tölur hef ég áður nefnt og gert grein fyrir. Það er rétt að nefna t.d. að árið 2021 sóttu hlutfallslega á hverja 10.000 íbúa 23 um hæli á Íslandi en þrír í Noregi. Við erum komin að þeim tímapunkti að hér sækja rúmlega 500 manns á mánuði um alþjóðlega vernd. Á síðasta ári voru um 4.500 sem sóttu um alþjóðlega vernd. Því er spáð að á þessu ári verði það að lágmarki 5.000. Síðan er rétturinn til fjölskyldusameiningar sem gerir það að verkum að þessar tölur geta hækkað þó nokkuð. Ég held að við hljótum að sjá að við erum að nálgast þolmörk í þessum málaflokki þegar við horfum t.d. bara til sveitarfélaganna sem stjórnvöld hafa verið að semja við um móttöku flóttafólks. Þau eru komin að þolmörkum. Reykjanesbær hefur t.d. gefið það út að hann taki ekki á móti fleiri flóttamönnum. Við getum ekki sinnt þessum málaflokki ef við eigum ekki gott samstarf við sveitarfélögin og sveitarfélögin hafa ekki bolmagn til að taka við þeim sem hingað koma.

Hvað veldur því að Ísland er orðið svona vinsælt? Jú, það er að hluta til regluverkið sem okkur hefur ekki tekist að uppfæra. Regluverkið er veikara heldur en á Norðurlöndunum og í Evrópu. Síðan er almennt viðurkennt að Ísland veitir eina bestu þjónustuna í þessum málaflokki í Evrópu. Á Íslandi eru sérreglur sem hafa ákveðið aðdráttarafl. Það er beinlínis hvetjandi fyrir fólk að leita hingað. Hingað berast t.d. margar umsóknir þar sem aðilar hafa fengið vernd í öðru ríki. Önnur lönd vísa þessum umsóknum yfirleitt frá sér. Þetta er dæmi um það að fleiri koma hingað, hópar umsækjenda, til að reyna fyrir sér í íslenska kerfinu, burt séð frá því hvort þeir eigi í raun og veru rétt á alþjóðlegri vernd eða ekki. Á Íslandi eru t.d. ekki lokuð búsetuúrræði sem er skylda innan Schengen-samstarfsins, þ.e. að þeir sem hafa fengið neitun og bíða þess að vera fluttir úr landi þurfi að búa á ákveðnum stað þar til brottflutningur á sér stað. Hér á landi eru mörg dæmi um að fólk finnist ekki þegar á að flytja það á brott.

Frú forseti. Það er orðið löngu tímabært að breyta lögunum en það hefur gengið erfiðlega pólitískt. Þetta frumvarp er skref í rétta átt. Það tekur ekki heildstætt á vandanum en það er skref í rétta átt. Ein veigamesta breytingin er að þegar einstaklingur hefur fengið endanlega neitun um hæli og stendur frammi fyrir brottvísun þá missir hann þjónustu ríkisins eftir 30 daga. Á því eru þó mikilvægar undantekningar sem lúta að barnafjölskyldum, fötluðu fólki, þeim sem hafa ekki ferðaskilríki og þeim sem eru samvinnuþýðir um brottför. Í dag er það þannig að ríkissjóður borgar fæði og húsnæði fyrir þá einstaklinga sem eru hér í landinu, hafa fengið endanlega niðurstöðu um að þeir eigi að yfirgefa landið en hafa ekki gert það. Engu að síður fá þeir þjónustu frá ríkinu sem nemur u.þ.b. 300.000 kr. á mánuði sem felst í framfærslu og húsnæði. Þessi veigamikla breyting felur það í sér að viðkomandi einstaklingur sem hefur fengið endanlega niðurstöðu í sínu máli hefur 30 daga til að yfirgefa landið. Talið er að það sé nægilega langur tími en þarna er undanþáguákvæði eins og ég nefndi. Síðan eru fleiri nauðsynlegar breytingar gerðar á frumvarpinu til að gera það skilvirkara, svo að ég noti það hugtak, og eyða óvissu. Það lýtur að tímafrestum, kæruleiðum, afhendingu heilbrigðisupplýsinga, endurteknum umsóknum, töfum á málum og fleiru.

Frú forseti. Í heiminum eru hundruð milljóna fólks sem er til í að leggja mikið á sig til að öðlast búsetu í vestrænum velferðarríkjum eins og Íslandi. Á síðustu áratugum hafa tækifærin til þess aukist mjög og er það einkum vegna samgöngubóta, viðhorfsbreytinga, lagabreytinga og breyttrar framkvæmdar laga. En það er líka fólk sem er að leita sér að vernd, alþjóðlegri vernd, sem býr við ofsóknir og líf þess er jafnvel í hættu. Þetta er það sem verndarkerfið snýst um, að taka á móti því fólki sem er í sannanlegri neyð. Það er líka fólk sem er að leita sér að betri lífskjörum, eins og ég rakti hér áðan, en það er ekki lögmæt ástæða fyrir því að sækja um vernd. Því miður er það svo að milljónir manna frá fátækari hlutum heimsins hafa lagt á sig dýrt, erfitt og jafnvel hættulegt ferðalag þangað sem þeir telja að lífsskilyrði séu betri. Það eru líka einstaklingar sem leita hingað af efnahagslegum ástæðum.

Höfum í huga að stríðið í Úkraínu hefur orsakað stærstu fólksflutninga í Evrópu síðan í síðari heimsstyrjöldinni. Hingað hefur komið töluverður fjöldi fólks frá Úkraínu eins og við þekkjum vel. Þetta fólk er í neyð. Ég hef séð það með eigin augum. Ég hef ferðast í tvígang til Úkraínu eftir að stríðið hófst og ég óska ekki neinum manni þess að búa við þær aðstæður sem Úkraínumenn búa við í þessu stríði. Ég tel reyndar að mikill meiri hluti Úkraínumanna muni snúa aftur heim að stríði loknu, sem við vonum að sjálfsögðu að verði sem allra fyrst.

Miðað við þann mikla fjölda fólks sem vill gerast innflytjendur í vestrænum ríkjum er Ísland mjög mannfátt. Við erum lítil og smá þjóð. Það er enginn vafi á því að ef dyrnar væru hér nægilega opnar myndu hundruð þúsunda taka því fegins hendi að fá búseturétt á Íslandi. Lífsskilyrði og lífsgæði á Íslandi eru mjög góð. Að sjálfsögðu verðum við að horfa í þessar aðstæður. Við myndum aldrei ráða við slíkan fjölda. Eins og ég sagði hér áðan eru lög um útlendinga þetta verndarkerfi, neyðarkerfi fyrir fólk sem sætir ofsóknum í heimalandi sínu eða á þar á hættu dauðarefsingu, pyntingar eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð. Það er sjálfsagt að aðstoða það fólk eftir fremsta megni en við verðum líka að hafa skilvirkt regluverk sem virkar hratt og vel þannig að þeim sem falla ekki undir þetta kerfi sé strax vísað frá svo að við getum þjónustað þá sem virkilega þurfa á aðstoðinni að halda. Hér er regluverkið einfaldlega ekki nægilega öflugt til að sinna þessu, sem er mjög mikilvægt að gera.

Frú forseti. Mig langar að svara ákveðnum spurningum sem hafa komið fram í þessari umræðu, t.d. þeirri spurningu hvort umsækjendur um vernd sem hafa fengið höfnun séu sviptir allri heilbrigðisþjónustu verði frumvarpið að lögum, eins og hefur verið haldið fram í þessari umræðu. Svarið við þeirri spurningu er nei. Ákvæði 6. gr. frumvarpsins heimilar ekki að fella niður réttindi tiltekinna einstaklinga, þ.e. barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir, svo að það komi hér skýrt fram. Þá gerir ákvæðið ráð fyrir að heimilt sé að fresta niðurfellingu réttinda ef það telst nauðsynlegt vegna sanngirnissjónarmiða, hafi viðkomandi sýnt samstarfsvilja við framkvæmd ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið. Ákvæðið kemur því eingöngu til skoðunar í tilviki barnlausra, heilbrigðra, fullorðinna einstaklinga sem dvelja hér á landi í ólögmætri dvöl og neita samvinnu við stjórnvöld við framkvæmd ákvörðunar um að yfirgefa landið. Þá á útlendingur í ólögmætri dvöl rétt á neyðaraðstoð á vegum opinbera heilbrigðiskerfisins hér á landi. Engum verður neitað um bráðaheilbrigðisþjónustu. Það hefur alltaf verið þannig á Íslandi. Ferðamenn sem koma hingað og eru ekki sjúkratryggðir og lenda í slysi eða á þurfa bráðaheilbrigðisþjónustu að halda fá hana og það sama á við um þennan hóp.

Síðan hefur verið sagt í þessari umræðu að verði frumvarpið samþykkt þá verði fólk látið sofa á götunni ef það fer ekki úr landi innan 30 daga. Ef við skoðum það nánar þá kemur umrætt ákvæði frumvarpsins eingöngu til skoðunar í tilviki barnlausra og heilbrigðra fullorðinna einstaklinga sem dvelja hér á landi í ólögmætri dvöl og neita samvinnu við stjórnvöld við framkvæmd ákvörðunar um að yfirgefa landið. Í því samhengi er rétt að árétta að einstaklingur í þessari stöðu á rétt á margvíslegri aðstoð frá stjórnvöldum við að fara af landi brott, svo sem greiðslu fargjalds, ferðastyrks og eftir atvikum enduraðlögunarstyrks sem getur numið allt að 450.000 kr. Hann hefur þessa 30 daga til að yfirgefa landið. Á fundi nefndarinnar kom fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og ég vil þakka fyrir það innlegg inn í þessa umræðu sem er mikilvægt. Ég spurði hann sérstaklega hvort hann teldi að þetta væri nægilegur tími og hann taldi svo vera. Hann gagnrýndi ekki þennan tíma, þessa 30 daga. Hann sagði réttilega að tilgangurinn með þessu ákvæði væri náttúrlega líka sá að senda ákveðin skilaboð. Þegar þú kemur og þitt mál verður til skoðunar og þú sérð fram á að þú færð ekki alþjóðlega vernd hér, að þú fallir ekki inn í verndarkerfið og þurfir að yfirgefa landið, þá mun þessari þjónustu ljúka eftir 30 daga. Þannig að sá hvati sem hefur verið hingað til er með þessu afnuminn.

Það verður að sjálfsögðu að teljast eðlileg krafa að einstaklingur hlíti lögmætum ákvörðunum stjórnvalda. Við búum í réttarríki og allir umræddir útlendingar hafa hlotið ítarlega meðferð mála sinna hjá stjórnvöldum og notið aðstoðar löglærðs talsmanns í því ferli, höfum það í huga, sem gætir hagsmuna og réttinda viðkomandi. Niðurstaða stjórnvalda hefur hins vegar verið sú að viðkomandi einstaklingur eigi ekki rétt til verndar hér á landi. Þar með teljast þeir ekki umsækjendur um vernd lengur með þeim réttindum sem 33. gr. kveður á um. Ég hef líka nefnt það hér fyrr í andsvari að áætlaður beinn kostnaður við þjónustu við einn umsækjanda sem hefur fengið endanlega synjun á umsókn sinni er að lágmarki 300.000 kr. á mánuði. Að þessu virtu skýtur það skökku við að útlendingur, sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn um alþjóðlega vernd en neitar að hlýða þeirri ákvörðun stjórnvalda og með athöfnum eða athafnaleysi sínu kemur í veg fyrir að ákvörðunin komi til framkvæmda, njóti áfram þeirra réttinda sem lög um útlendinga kveða á um, þar á meðal heilbrigðisþjónustu. Þeir geta samt sem áður leitað í úrræði sem er til staðar samkvæmt reglum um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og það eru til staðar öryggisventlar sem koma í veg fyrir að umræddir einstaklingar hafist við á götunni.

Síðan hefur margsinnis komið hér fram í þessari umræðu, frú forseti, að frumvarpið brjóti mögulega gegn stjórnarskrá. Er það rétt? Nei, það er ekki rétt. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands beinir spjótum að breyttu mati á endursendingum, sérákvæðum um börn og rétti útlendinga til aðgangs að dómstólum. Frumvarpið mælir hins vegar ekki fyrir um þessi atriði. Meginþunginn í athugasemdum Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands er að niðurfelling réttinda, sbr. 6. gr. frumvarpsins, brjóti gegn stjórnarskrá. Því er til að svara að það getur ekki talist til mannréttinda að vera í fríu fæði og húsnæði og uppihaldi í ríkisins af því að einstaklingur neitar að fara úr landi í trássi við lögmæta ákvörðun stjórnvalda. Hann er í ólögmætri dvöl í landinu. Þess vegna á hann ekki einhverja kröfu á það að fá fæðispeninga og húsnæðispeninga frá ríkissjóði. Sambærileg ákvæði má finna í flestum Evrópuríkjum. Þá var bent á að ákvæði frumvarpsins um sjálfkrafa kæru til kærunefndar og styttri greinargerðarfresti brjóti mögulega gegn réttindum til réttlátrar málsmeðferðar. Sú athugasemd stenst enga skoðun.

Frú forseti. Ég hef rakið í þessari ræðu minni nokkur álitaefni sem hafa komið fram og hrakið það sem hér hefur verið sagt, eins og t.d. að frumvarpið brjóti gegn stjórnarskrá og það brjóti mannréttindi o.s.frv. Ég verð bara að segja að lokum það sem hefur verið sagt í þessari umræðu, að þetta er stór og mikill málaflokkur. Við höfum svo sannarlega séð að hann er síbreytilegur. Þess vegna er afar mikilvægt að uppfæra lögin og það er verið að gera með þessu frumvarpi. Ég persónulega tel að það sé margt fleira sem vantar í þetta frumvarp sem bíður þá betri tíma eins og t.d. þetta með að afnema þessar íslensku sérreglur. Ég sé engan tilgang með því og ég skil ekki alveg þá sem tala fyrir því að Ísland þurfi að hafa einhverjar sérreglur, vægara regluverk heldur en er t.d. á Norðurlöndum og í Evrópusambandinu öllu. Að þessu sögðu þá er þetta frumvarp réttarbót (Forseti hringir.) og skref í rétta átt.