Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er nokkuð hnuggin yfir því að hv. þingmaður heldur áfram að fara með rangfærslur þrátt fyrir að hafa verið leiðréttur fyrr í dag. Hv. þingmaður talar hér um 5.000 manns á ári sem sæki um vernd sem þýðir að við myndum sjá 15.000–20.000 manns á ári þegar fólk sækir um fjölskyldusameiningu. Þetta er langt frá því að vera rétt. Í fyrsta lagi fá ekki allir vernd sem hingað koma, það veit hv. þingmaður. Hluta þeirra er synjað og eiga þar með ekki rétt á fjölskyldusameiningu. Þá einskorðast réttur til fjölskyldusameiningar við maka og börn auk þess sem fylgdarlaus börn eiga rétt á að fá foreldra og systkini en mjög mörg af þeim sem hingað koma eru t.d. frá Venesúela, og það eru fjölskyldur. Þú getur ekki sótt einhverja fyrir utan þessa grunneiningu sem eru foreldrar og börn. Það er óheppilegt að hv. þingmaður skuli ítrekað fara með þessar rangfærslur. Á síðasta ári fengu tæplega 2.900 leyfi á Íslandi þar af 40 vegna fjölskyldusameiningar, vegna þess að í heildartölunni flokkast þeir sem fá vernd á Íslandi vegna fjölskyldusameiningar sem umsækjendur um vernd á grundvelli fjölskyldusameiningar og fá stundum leyfi til dvalar hér, fá vernd á grundvelli þessarar fjölskyldusameiningar. Þetta eru ekki margföldunaráhrif sem verða þarna og óska ég eftir því að hv. þingmaður kynni sér málin betur.

Ég vil spyrja hv. þingmann í fyrra andsvari: Hvað vill hv. þingmaður taka á móti mörgum í leit að vernd? Getur hann upplýst okkur um þá tölu sem hann treystir sér til að nefna? Hvað vill hv. þingmaður þjónusta marga sjúka í heilbrigðiskerfinu? Getur hann upplýst okkur um það? Og aðeins varðandi heilbrigðisþjónustuna þá kemur fram í umsögn embættis landlæknis að heilbrigðisþjónustan sé grundvallarréttur sem læknar verði að veita (Forseti hringir.) og þeir gjalda varhug við að hann sé felldur niður vegna þess að um getur verið að ræða þá sem eru smitaðir, (Forseti hringir.) þá sem eru með einhvers konar sótt eða þá sem glíma við geðrænar áskoranir og verða að fá bót meina sinna þó að það flokkist ekki undir bráðasjúkdóma.

(Forseti (LínS): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)