Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ítreka spurningar mínar: Hvað vill hv. þingmaður taka á móti mörgum í leit að vernd? Ég óska eftir að fá tölu, eins og hv. þingmaður hefur spurt þá sem hér stendur. Varðandi sveitarfélögin þá hefur bara verið samið við hluta sveitarfélaga og minni ég á að næststærsta sveitarfélag landsins, sem stýrt er af flokkssystur hv. þingmanns, neitar að taka þátt í þessu verkefni sem okkur ber þó lagaleg skylda að gera. Því velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður ætti ekki að beita sér fyrir því að það gríðarlega álag sem er í kjördæmi þingmannsins og nágrannasveitarfélögum bitni ekki bara á fólkinu og innviðum þar, heldur að þessu verði jafnar dreift á önnur kjördæmi landsins. Ég held að hv. þingmaður ætti að huga aðeins að því að minnka álagið í sínu eigin kjördæmi vegna þess að þetta er stórt verkefni og ósanngjarnt að næststærsta sveitarfélag landsins skili bara auðu, þ.e. Kópavogur og fleiri sem stýrt er af flokkssystkinum hv. þingmanns. Ég spyr aftur: (Forseti hringir.) Hvað treystir hann sér til að taka á móti mörgum og finnst honum ekki eðlilegt að fleiri sveitarfélög komi inn í þetta verkefni?