Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek undir með honum að sveitarfélögin verða í fyrsta lagi að hafa bolmagn til að taka þátt í þessu samstarfi með okkur. Það eru sveitarfélög eins og Reykjanesbær sem hafa verið frumkvöðlar í þessu starfi og eiga hrós skilið fyrir hvað þau hafa staðið sig vel, en eru nú komin að þolmörkum. Á meðan hafa önnur sveitarfélög, Kópavogur, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, tekið á móti afar fáum. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að skylda þessi sveitarfélög til að taka á móti flóttamönnum en það er alveg ljóst að fáein sveitarfélög, eins og Reykjanesbær og Hafnarfjörður, geta ekki borið allan þunga af þeim fjölda sem hingað kemur. Það er alveg ljóst. Af því að hv. þingmaður spurði um það hvað ég vildi taka á móti mörgum, (Forseti hringir.) þá get ekki nefnt neina tölu, en við verðum að hafa bolmagn til að geta veitt þjónustuna. Við erum komin að þolmörkum með heilbrigðiskerfið, félagslega kerfið og húsnæðiskerfið. (Forseti hringir.) Það þýðir bara að við getum ekki tekið á móti fleirum eins og staðan er núna — það er bara þannig.

(Forseti (LínS): Forseti sér ástæðu til að ítreka það við hv. þingmenn að það ber að virða ræðutímann.)