Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er búinn að fara yfir þetta í minni ræðu varðandi stjórnarskrárbrotið. Það lýtur að niðurfellingu þjónustu eftir 30 daga. Hvernig í ósköpunum má það vera brot á stjórnarskrá þegar viðkomandi er búinn að fá skýr skilaboð um að hann eigi ekki rétt á vernd í landinu? Hann er kominn á endastöð hvað það varðar. Hann hefur notið aðstoðar löglærðra einstaklinga í sínu máli; réttlát málsmeðferð heitir það. Hans bíður brottflutningur frá landinu og hefur 30 daga til að fara. Eftir það fellur þessi þjónusta niður. Hann fær ekki lengur framfærslupening og ekki húsnæði á vegum hins opinbera. Hvernig í ósköpunum má það vera stjórnarskrárbrot? Það segir sig bara sjálft, hv. þingmaður, að ef ég er ólöglega í einhverju landi, t.d. Bandaríkjunum — telur hv. þingmaður virkilega að ég eigi rétt á því að fá húsnæði í Bandaríkjunum og framfærslu? (Forseti hringir.) Nei, ég yrði sendur samdægurs úr landi, hv. þingmaður.