Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:44]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér leikur forvitni á að vita: Telur hv. þingmaður að það fólk sem leitar hingað, t.d. af götunni í Grikklandi, hafi raunverulega hugmynd um hvaða þjónusta bíður þess, hvaða fjárhæð það fær á viku, hvers lags húsnæði það fær og annað?

Hvergi á hinum Norðurlöndunum, fyrst hv. þingmaður nefnir það — nú fórum við saman í vettvangsferð um Norðurlöndin og fengum að sjá hvernig hlutirnir eru gerðir þar — er þjónustan með öllu felld niður með þeim hætti sem ætlunin er með þessu frumvarpi, sem ég held reyndar að muni ekki takast. Hvergi er hún felld niður. Í Danmörku, þar sem ein harðasta stefnan er við lýði og var talsvert sláandi að hlusta á danska þingmenn tala um þennan hóp fólks, sögðu þau hreint út: Við viljum ekki vera með fólk búandi undir brúm hérna, (Forseti hringir.) vegna þess að þau vilja vernda samfélagið en ekki af því að þau eru upptekin af mannréttindum fólksins. Því spyr ég hv. þingmann: Hvernig væri þetta í samræmi við það sem er gert á öðrum Norðurlöndum? Þetta er ekkert í samræmi við það.