Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Já, ég tel að þeir sem koma hingað og leitast eftir alþjóðlegri vernd, t.d. frá Grikklandi eins og hv. þingmaður nefndi, viti hvaða þjónusta er hér í boði. Þegar kemur að þjónustu, regluverki og öðru slíku, þá spyrjast þessir hlutir mjög hratt út. Við þekkjum hér frá fyrri árum að þá kom mikill fjöldi frá ríkjum sem voru örugg. Ástæðan fyrir því var m.a. að ákveðnar upplýsingar bárust um að ríkisborgarar frá þessum löndum væru sérstaklega boðnir velkomnir hingað. Þetta spyrst því mjög hratt út, hv. þingmaður. Varðandi regluverkið í Danmörku þá er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er strangt og ég hef lýst því hér í ræðu. (Forseti hringir.) Öll ríki hafa þessa stiglækkandi þjónustu og verið er að gera það með frumvarpinu. (Forseti hringir.) Það er mikilvæg undantekning í ákvæðinu varðandi þjónustuskerðinguna sem hv. þingmaður þekkir.