Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:47]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Herra forseti. Það hefur verið átakanlegt að hlusta á málflutning minni hlutans í þessu máli. Þeir sem hafa látið sig útlendingamál varða og fylgst með málsmeðferð slíkra mála á hinum ýmsu stjórnsýslustigum, sem og framferði lögregluyfirvalda við úrlausn flókinna verkefna, vita vel að það þarf vissulega að gera breytingar á útlendingalögum sem og stjórnsýslunni við móttöku erlendra einstaklinga í neyð hér á landi. Hér hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar ítrekað rætt um sprungin kerfi og að það sé nauðsynlegt að hér ríki sama regluverk og á Norðurlöndum; þetta hefur verið mikið rætt hér í kvöld. Þá telur ríkisstjórnin að um gífurlega réttarbót sé að ræða, enda sé verið að færa réttarumhverfi okkar nær því norræna.

Fyrir það fyrsta, eins og ágætlega hefur verið farið yfir hér, er það að því er virðist tilhæfulaus fullyrðing. Það hefur alla vega engum tekist hér í kvöld að færa konkret rök fyrir því hvernig ýmsum málaflokkum er fundinn staður að norrænni fyrirmynd. Það er t.d. hvergi á Norðurlöndum að finna beina heimild til að senda fólk út í sambærilega óvissu til tilviljunarkenndra landa á grundvelli huglægs mats á meintum tengslum umsækjenda við land eða fólkið í landinu, eins og lagt er til í frumvarpinu, þar sem fólk nýtur ekki dvalarleyfis og litlar sem engar líkur eru á því að fólk fái griðastað í því landi.

Við vitum að það er þannig að helstu réttarbætur okkar koma gjarnan frá Norðurlöndunum, jafnaðarsamfélögum þeirra, eða Evrópu ef því er að skipta, og þetta er kannski ekki rétti vettvangurinn til þess að ræða það. En því miður er það hins vegar svo að það er einmitt í þessum málaflokki, útlendingamálum, þar sem íslenskur jafnaðarmaður eins og ég og sósíaldemókrati getur illa mátað sig við einhvern norrænan skóla því að Norðurlandaþjóðirnar fara bara ekkert eins að í þessum málaflokki. Mest íþyngjandi þjónustuskerðingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru réttlættar með almennum tilvísunum í norrænan rétt. Það er allt eins hægt að vitna bara í Wikipediu.

En bíðum við: Er að finna í frumvarpinu umbætur á norræna skólanum? Einhverjar umbætur þar sem gengið er skref í átt að því að bæta úr aðstæðum flóttamanna? Nei, það á bara að skera niður réttindi einstaklinga að norrænni fyrirmynd en ekki bæta við þau. Við jafnaðarmenn getum eiginlega ekki látið óáreitt að vísað sé til norrænna réttarbóta í þessu tiltekna frumvarpi dómsmálaráðherra þegar það virðist ekki vera hálfur fótur fyrir slíkum fullyrðingum sem að því er virðist eru settar fram í veikri von um að almenningur trúi því að hér séu settar fram málefnalegar umbreytingar í formi lagafrumvarps sem byggi á reynslubanka velferðarsamfélaganna sem við lítum alla jafna til. Þó svo að gerðar séu einhverjar undantekningar á ákvæðum frumvarpsins um þjónustusviptingu þegar um börn er að ræða, barnshafandi konur, sérstaklega viðkvæma einstaklinga, sem og samstarfsfúsa einstaklinga við framkvæmd ákvörðunar um að viðkomandi skuli yfirgefa landið þá eru þetta alger kaflaskil í meðferð íslenskra stjórnvalda á fólki sem óskað hefur eftir vernd. Við gætum nefnilega verið að gera þetta svo miklu betur.

Núgildandi löggjöf var meira að segja samin í þverpólitískri vinnu. Það var stofnuð nefnd um breytingar á útlendingalögum skipuð þingmönnum allra flokka og afurðin var núgildandi löggjöf sem hefur að mörgu leyti reynst ágætlega þótt gera megi athugasemdir við framfylgd og framkvæmd hennar. Haustið 2017, eins og fram hefur komið, náðist að leggja drög að þverpólitískri sátt allra stjórnmálaflokka nema Sjálfstæðisflokksins um að ráðast í nauðsynlegar breytingar á útlendingalögum í þeim tilgangi að tryggja betur vernd þeirra einstaklinga sem teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu og þá að Alþingi myndi taka sérstaklega afstöðu til þess hvernig megi styrkja stöðu barna sem umsækjenda um alþjóðlega vernd til frambúðar og að framkvæmd útlendingalaga fari fram í sem bestu samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Breytingin sem hér hefur verið gerð mun leiða til minni skilvirkni stjórnvalda við að afgreiða umsóknir innan tímafrests og til þess að sífellt fleiri börn sem dvalið hafa hér um langt skeið munu ekki öðlast neinn rétt á þeim grundvelli heldur dvelja hér áfram í óvissu án nokkurra réttinda.

Ég hef fengið að heyra það hér að foreldrar eigi að bera ábyrgð á börnum sínum. Við vitum auðvitað að lífið er ekki alltaf svo einfalt. Og eitt skulum við hafa á hreinu, að börn koma ekkert alltaf hingað í fylgd foreldra sinna, þau eru send fylgdarlaus úr landi beint út á einhverja götu, hvort sem hún er íslensk eða ekki. Eins og frumvarpið lítur út verður horfið frá þeirri framkvæmd að láta tafir foreldra eða umsjónarmanna ekki bitna á rétti barna til efnislegrar meðferðar. Eins og réttilega hefur komið fram, í umsögn Rauða krossins á Íslandi við fyrirliggjandi frumvarpsdrög, er þá ekki verið að taka tilhlýðilegt tillit til þarfa barna og er það ekki í samræmi við meginreglur barnaréttar um að við ákvarðanatöku skuli hafa bestu hagsmuni barna að leiðarljósi. Breytingin gengur algerlega þvert á ákvæði 2. gr. barnasáttmálans þar sem segir að aðildarríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima.

Eins og segir í umsögn Rauða krossins, með leyfi forseta:

„Ákvæðið beinist einkum gegn því að börn séu sett í þá aðstöðu að vera látin líða fyrir athafnir foreldra sinna eða ættingja, sem þau eiga engan þátt í né bera ábyrgð á, en eru samt látin gjalda fyrir vegna sérstaklega viðkvæmrar stöðu sinnar. Þá er tilefni til að taka fram að þau rúmlega sjö ár sem Rauði krossinn sinnti talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa talsmenn félagsins ekki orðið þess áskynja að foreldrar hafi „þvingað fram efnislega málsmeðferð“ með því að viljandi tefja mál sín, líkt og fram kemur í frumvarpinu, og er umrædd staðhæfing því í engu samræmi við reynslu félagsins.“

Fyrir utan þessa umsögn Rauða krossins skal þess getið að næstum allar umsagnir sem hafa borist allsherjar- og menntamálanefnd vegna frumvarpsins hafa falið í sér þunga gagnrýni á frumvarpið og þær breytingar sem lagðar eru til. Það segir sitt.

Herra forseti. Það er og verður algerlega óásættanlegt að horfið verði frá þeim réttarbótum sem hafa orðið á undanförnum misserum í þágu barna á flótta. Við verðum líka að fá að koma því á framfæri hér að við söknum þess sárlega að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sé ekki staddur í umræðunni með okkur þar sem við höfum allflest, ef ekki öll, mestar áhyggjur af þeim málefnum sem falla undir málefnasvið hans. Við myndum svo gjarnan vilja fá fram einhverja hughreystingu hæstv. ráðherra á þann veg að með nýju frumvarpi útlendingalaga verði hægt að veita sérstaklega viðkvæmum hópum aukna vernd, ef það á annað borð liggur fyrir.

Við viljum öll fá fram réttarbætur í útlendingamálin og málefnum flóttafólks. Við eigum að leyfa þeim að stunda atvinnu og sömuleiðis ekki að leyfa okkur að horfa upp á vanrækslu barna í boði íslenskra stjórnvalda. Hér liggur fyrir frumvarp sem virðist hafa þann eina tilgang að gera Ísland að ófýsilegri stað fyrir flóttafólk og fólk í leit að vernd. Hingað mun fólk samt ekki hætta að koma í þessum tilgangi en ríkisstjórnin ætlar að hugga sig við það að framkoma stjórnenda sem nýlega hefur verið dæmd ólögmæt, líkt og þekkt er, verði ekki bara miskunnarlaus heldur líka lögleg.

Virðulegur forseti. Það er hægt að móta flóttamannastefnu fyrir Ísland í þverpólitískri sátt. Þetta frumvarp er ekki dæmi um það. Þetta er dæmi um breytingar í þágu kerfis sem vill hafa frjálsari hendur til að senda fólk úr landi og svipta það þjónustu.