Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:57]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Að sjálfsögðu get ég svarað spurningu hans með þeim hætti að engin manneskja með snefil af sómakennd getur fellt sig við þau vinnubrögð að það sé verið að bíða eftir því að einhver nái 18 ára aldri, einstaklingur sem hefur verið hér í fjölda mánaða og missera að bíða eftir efnislegri málsmeðferð. Ég ætla ekki að fella neina dóma um það akkúrat hér og nú, mig skortir forsendur til að leggja mat á það hvort þetta sé hreinlega lögmætt eða verði það samkvæmt nýju frumvarpi, mig grunar að svo sé án þess að ég vilji neitt fullyrða um það. Nei, við ætlum ekki að samþykkja slíkar vendingar. Vegna þess að hér er oft talað um skilvirkni þá held ég að þessi löggjöf sé til þess fallin að auka á samfélagslega ósamstöðu, þ.e. fólk verður ósátt við það sem hér er lagt til, og það verður ekki gott fyrir neinn.