Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:58]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Og snefill af sómakennd, mér fannst það vera orð sem eiga vel við, sérstaklega um þessi mál. Meiri hlutanum verður tíðrætt um að þetta frumvarp eigi að auka skilvirkni og eins og hv. þingmaður bendir á þá teljum við í minni hlutanum að þetta muni í raun minnka skilvirkni og flækja hlutina. Hér fyrr í dag hefur líka verið talað um að það hefði verið betra að reyna að ná breiðri sátt.

Ég held að við viljum öll aukna skilvirkni í kerfið. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað getum við gert með kerfið og lögin eins og þau eru í dag til að bæta þessa skilvirkni? Væntanlega ekki samþykkja einhver atriði í þessu frumvarpi sem gera skilvirknina minni heldur gera breytingar. Gætum við t.d. aukið mannafla Útlendingastofnunar? Gætum við nýtt fleiri sveitarfélög til að taka við flóttafólki o.s.frv.? Hvaða hugmyndir hefur hv. þingmaður um það hvernig við getum unnið að skilvirkninni og sáttinni?