Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:01]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um útlendingalöggjöf og finnst mér umræðan oft vera svolítið út og suður og kannski ekki alveg snúa að máli málanna. Þess vegna ætla ég að tala svolítið almennt í minni ræðu um þessi mál, næ vonandi að skýra það eitthvað og fara í kjarnann á því um hvað það snýst.

Ég held að það megi kannski skipta útlendingamálaflokknum í þrjá liði. Til að byrja með er Ísland frekar opið land, sérstaklega fyrir þá sem eru á EES-svæðinu og vilja koma hingað, taka þátt í okkar samfélagi, fá sér atvinnu og búsetu og vinna. Það eru um 450 milljónir manns sem geta flutt hingað og starfað ef þeir vilja. Þegar þeir koma hingað, fá vinnu og starfa þá köllum við þá í daglegu tali innflytjendur. Þetta er mjög mikilvægur hópur fólks sem gerir okkar land fjölbreytt og tekur þátt í að reka okkar samfélag, lætur atvinnulíf okkar ganga upp og bætir mannlífið. Það skiptir okkur gríðarlega miklu máli að geta tekið vel á móti þessu fólki, hjálpað því að aðlagast okkar samfélagi og annað slíkt. Svo getum við rætt — það er bara ekki til umræðu í þessu frumvarpi — hvort við eigum að gefa enn fleirum en þeim 450 milljónum manns sem eru inni í EES-samningnum tækifæri til að koma hingað og sækja um atvinnu, þ.e. frá fleiri svokölluðum þriðju ríkjum. Við getum alveg rætt það og ég held að það geti verið skynsamlegt að einhverju leyti. Við þekkjum samfélög hér á landi þar sem yfir 27% íbúanna eru innflytjendur, eins og í Reykjanesbæ þar sem við höfum dæmi um grunnskóla þar sem eru 60 þjóðerni og 45 tungumál. Enginn er að tala um þetta í þessu máli.

Svo erum við með annan stóran hóp sem ég held að við séum öll sammála um að sé mikilvægt að taka vel á móti og bjóða velkominn hingað. Það er sá hópur sem er að flýja stríð þar sem líf og limir eru í hættu, fólk eins og frá Úkraínu sem allir eru tilbúnir að taka á móti. Við erum með sérstakt kerfi til að taka á móti svoleiðis fólki og þurfum að gera allt sem við getum til að taka vel á móti fólki í svo viðkvæmri stöðu.

Síðan er þriðji hópurinn fólk sem er að leita að betra lífi, vill jú komast að einhverju leyti í meira öryggi en er kannski ekki að flýja stríð. Aðstæður geta verið bágar, ég geri mér grein fyrir því, og fólk vill kannski koma hingað og fá vinnu og betra efnahagslegt liðsinni. Það getur ekki sótt um vinnu á grundvelli EES-samningsins um frjálsa för fólks en hefur heldur ekki réttindi inn í okkar hælisleitendakerfi, eða sem sagt að þetta sé veitt, en sækir samt um hæli. Um þennan hóp fólks erum við mest að ræða hér. Ég skil þennan hóp fólks mjög vel, að vilja koma, búa og starfa á Íslandi. Ég hef ekkert á móti þessu fólki, ekki neitt. En við verðum að vera mjög íhaldssöm og passíf um að þeir sem eiga ekki rétt og eiga ekki heima inni í hælisleitendakerfinu og verndarkerfinu okkar — þar verðum við að standa fast á bremsunni. Við höfum ekki bolmagn. Ef við gerum það ekki og missum tökin, þá höfum við fjölmörg dæmi í löndunum í kringum okkur í Evrópu, ekki síst á Norðurlöndunum, sem sýna að það getur orðið óheillaþróun ef menn passa ekki upp á að þetta kerfi sé rétt notað. Við þurfum ekki að halda að það verði eitthvað öðruvísi á Íslandi. Við hljótum að geta hlustað á nágrannaþjóðir okkar.

Þá set ég það líka fram að þegar við viljum hafa hér öflugt kerfi til að taka á móti fólki í neyð, eins og frá Úkraínu, þá hlýtur að vera mikið erfiðara að taka á móti meira en 4.000 manns en bara 2.000. Ef það væri bara fólk frá Úkraínu að sækja hér um vernd þá værum við að veita þessa þjónustu; félagslega aðstoð, húsnæði, reyna að koma því í vinnu og inn í skólana og hjálpa fólkinu að aðlagast samfélaginu. Fyrir okkur sem lítið samfélag, með bresti í sumum okkar grunninnviðum, hlýtur að vera auðveldara að gera þetta fyrir 2.000 manns en 4.000 manns, þegar við erum vön að gera það fyrir 800 manns. Þetta skiptir því svo miklu máli. Við verðum líka að átta okkur á því að ef við erum með einhverja lina löggjöf, linari en í öðrum löndum, og fólk ákveður að koma frekar hingað en eitthvert annað þá stækkar þetta alltaf. Fiskisagan flýgur hratt í þessum málum. Við verðum því að hafa þetta á hreinu, bæði fyrir þá sem þurfa á verndarkerfinu að halda og okkur sem samfélag, til að við getum varið samfélagið miðað við þau varnaðarorð sem ég hef heyrt frá Norðurlöndunum.

Árið 2012 voru umsóknir um vernd rúmlega 100. Árið 2021 held ég að þær hafi verið 800 og 2022 voru þær 4.400. Það sjá allir að þetta gengur ekki upp, við ráðum ekki við þetta. Við sjáum það líka núna í framkvæmdinni þar sem ég hef miklar áhyggjur af því — það er verið að leigja út húsnæði sem enginn hefur viljað nota til fleiri ára, mygla hefur verið að koma upp, lélegt viðhald og Vinnumálastofnun er hlaupandi eftir þessu, félagsþjónusta og skólar ekki tilbúin að taka á móti fólkinu sem hefur mikil áhrif — að þetta skapi vissa óvissu, sem er ekki góð fyrir fólkið. Því þurfa samfélögin að vera tilbúin til að taka á móti fólki og annað slíkt. Við verðum að hafa þetta allt mjög skýrt. Þessi löggjöf fjallar um það að auka skilvirknina og hafa lögin skýrari, og svo þarf framkvæmdin að fylgja með. Þetta snýst um löggjöfina og framkvæmdina. Það er ekki gott ef ríki og sveitarfélög og svo samfélögin sjálf eru farin að deila um þetta og takast á. Við þurfum að hafa þessa hluti í lagi.

Ég held að það sé óumdeilt að löggjöfin hér sé linari en í öðrum Evrópuríkjum þótt hún og samanburðurinn sé hvergi nákvæmlega eins — almennt er þetta þannig. Þá skulum við líka átta okkur á því, sem er alveg þekkt, að skipulögð brotastarfsemi er því miður mjög algeng hvað varðar flutning á fólki. Skipulögð glæpasamtök eru að nýta sér neyð og þrá fólks sem leitar að betra lífi. Það er staðreynd og ég held að við Íslendingar viljum ekki vera farvegur fyrir skipulagða glæpastarfsemi, flytja fólk hingað í góðri trú sem er svo allt í einu orðið flækt í þetta. Það viljum við ekki. Því miður er staðan sú að fólk kaupir sér farseðil til Íslands, stundum fylgir með honum vegabréf, og svo þegar til Íslands er komið á að bíða vinna, húsnæði og framfærsla; síðan er bankað upp á mánaðarlega, framfærslan endurheimt og send út til skipulagðra glæpasamtaka. Þetta viljum við ekki bjóða upp á en þetta er því miður staðan sem við þurfum að takast á við og við berum ábyrgð á því sem þjóð að þetta sé ekki látið líðast.

Hér erum við að fjalla um einn part af útlendingalöggjöfinni, sem er frumvarp sem á að færa okkur lítið skref í átt að samræmi við útlendingalöggjöfina í Evrópu. Það er nú allt það ómannúðlega sem talað hefur verið um hér. Ég spyr því: Hvernig myndu þeir þingmenn sem halda fram þessu ómannúðlega framferði íslenskra stjórnvalda lýsa framferðinu ef þeir væru í þinginu í Svíþjóð, Danmörku, Hollandi eða annars staðar í Evrópu? Hvaða lýsingarorð myndu þeir nota þá? Það þætti mér gaman að heyra. Er ESB eftirsóknarvert að öllu leyti nema þegar kemur að löggjöf varðandi umsækjendur um vernd? Eru flestöll ríki Evrópu með ómannúðlega útlendingalöggjöf?

Mér finnst umræðan hér vera komin svolítið langt frá efninu og eiginlega bara út í skurð þegar notuð eru þessi sterku lýsingarorð um að hér séu allir svo ómannúðlegir, að við séum svona vond, að okkur vanti fleiri vinnandi hendur og ég veit ekki hvað og hvað. Það er ekki verið að fjalla um það sem er verið að gera hér í þessu máli. Ísland fær hlutfallslega fleiri umsækjendur um vernd en Norðurlöndin hafa fengið í mörg ár. Við hljótum að sjá að það er einhver ástæða fyrir því. Með þessu áframhaldi munum við lenda í sömu vandamálum og önnur Norðurlönd og sömu öfgavæðingu á umræðunni. Þangað viljum við ekki fara. Við viljum ekki öfgavæða umræðuna. Því skulum við bara vanda okkur við að hafa okkar löggjöf skýra og skilvirka. Hún þarf að vera íhaldssöm þegar kemur að verndarkerfinu, en við getum rætt hvort við viljum breyta einhverju varðandi innflytjendur sem koma hingað, sækja um vinnu, standa undir sér sjálfir og taka þátt í samfélaginu. Það er allt annar hlutur.

Við verðum að líta til ábyrgðar okkar og við verðum líka að horfa á hvaða áhrif það hefur ef við erum að senda út skilaboð um að ef þú uppfyllir einhver skilyrði þá getur þú bara komið til Íslands og farið inn í verndarkerfið, sem er félagslegt kerfi. Ef það fjölgar alltaf þar þá verður erfiðara og erfiðara að veita þjónustuna, hvað þá fyrir þá sem þurfa á henni að halda, og innviðirnir sem öll þjóðin þarf á að halda, sem og þeir sem þurfa vernd, munu bresta. Þeir eru virkilega komnir að þolmörkum í dag. Við höfum undanfarin ár töluvert verið að auka skilvirkni í þessu og það hefur margt verið gert. Framkvæmdin skiptir miklu máli. Það er að einhverju leyti erfiðara, vegna legu landsins og annað, að stunda framkvæmdina, brottvísa fólki og annað slíkt. Varðandi brottvísanir þurfum við líka að hafa í huga að hér þarf að brottvísa fólki með flugvélum og það getur tekið lengri tíma og verið erfiðara. En af reynslu minni í lögreglunni og þessum málum að dæma, þá er það oftast þannig að þegar verið er að blása þessi mál upp í fjölmiðlum og fólk er búið að dvelja hér lengi, þá er það eiginlega í fæstum tilfellum, ef einhverjum, stjórnvöldum að kenna heldur hefur samstarfsvilji og vissar athafnir þeirra sem hafa fengið fullnaðarniðurstöðu í sínum málum tafið að brottvísun eigi sér stað. Þetta frumvarp snýst líka um að það hefur verið hvati til að hjálpa fólki að fara sjálft, fólk hefur fengið stuðning til þess þegar málsmeðferð er lokið.

Við verðum að sýna þá ábyrgð að tala um þetta af yfirvegun og út frá staðreyndum. Við erum að auka skilvirkni varðandi það að hér séu ekki stórir hópar fólks, hvort sem það kemur sjálft eða á vegum skipulagðra glæpasamtaka, sem nýta sér verndarkerfi sem þeir eiga ekki réttindi inn á, veikja kerfið og misnota það að einhverju leyti — sumir, ekki allir. Við verðum að hafa dug til að stoppa í þessi göt. Það erum við að gera með því að færast nær löggjöf í Evrópu og það er ekkert nema ábyrgðarhlutur að gera það. Því vona ég að okkur farnist að horfa á þetta með skynsemisaugum, klára þetta frumvarp og halda svo áfram að bæta framkvæmdina. Það er öllum til hagsbóta — þeir sem sækja um vernd fá lausn sinna mála — að þetta sé skýrt og ekki þurfi að bíða lengi eftir þessu. Líka svo kerfið í heild sinni haldi og þeir sem eru inni í verndarkerfinu og eiga rétt á vernd fái þá þjónustu sem þeir þurfa og við getum veitt þeim aðstoð í þeirri viðkvæmu stöðu sem þeir eru.

Ég treysti á það að við klárum þetta mál og færum umræðuna í aðeins skynsamlegri farveg.