Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að vekja athygli hv. þingmanns sem talaði um fólk sem kemur hingað að ástæðulausu og sækir um vernd. Samkvæmt svari frá hæstv. dómsmálaráðherra voru tilhæfulausar umsóknir á síðasta ári níu af 4.500. Það eru 0,02% af heildinni. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem tekur á þessu, af því að við erum að tala um að auka skilvirkni. Það er ekki verið að breyta neinu hvað þetta varðar, þennan hóp. Þetta er alltaf ákveðinn hluti af hópnum en við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að þessar umsóknir muni sliga kerfið.

Skipulögð brotastarfsemi er mjög alvarlegt mál. Það er hrikalegt að glæpahópar séu að nýta sér neyð fólks á flótta. Það er staðreynd. Því miður er ekkert í þessu frumvarpi eða öðrum störfum ríkisstjórnarinnar sem tekur á þessu og reynir að veita þessu fólki sérstaka vernd, ekki neitt.

Við hittum hóp Evrópuráðsins er varðar mansal og þau lýstu áhyggjum sínum yfir því að það væru engar tölulegar upplýsingar á Íslandi um þennan hóp. Við höldum ekki utan um þetta, hverjir eru mögulega fórnarlömb mansals, og þess vegna er erfitt fyrir okkur að greina þann vanda.

Hv. þingmaður spurði: Er ESB ákjósanlegt um allt nema þegar um er að ræða samræmda löggjöf um umsækjendur um vernd? Það er ekki til neitt sem heitir samræmd löggjöf í Evrópuríkjunum af því að þau taka ólíkt á þessum hlutum. Við auðvitað heimsóttum tvö ríki sem ekki eru í Evrópusambandinu en Danmörk og Svíþjóð eru að gera þetta ólíkt. (Forseti hringir.) Grikkland er að gera þetta ólíkt, Þýskaland o.s.frv. Ég held því að við verðum eitthvað að rýna þetta betur.