Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:27]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni kærlega fyrir ræðuna. Hún varpar ljósi á misskilning sem mig grunar að sé útbreiddur og skýrir margt. Ég ætla því að leyfa mér að byrja á því að leiðrétta ákveðin grundvallaratriði sem komu fram í ræðu hv. þingmanns. Í fyrsta lagi er verndarkerfið ekki félagslegt kerfi. Það er ekki það sem það gengur út á. Þegar fólk kemur og sækir hér um alþjóðlega vernd þá er það að sækja um dvalarleyfi. Dvalarleyfi fyrir flóttamann er til fjögurra ára og því fylgir óbundið atvinnuleyfi. Ég vil byrja á að leiðrétta þetta.

Þá langar mig til að hryggja hv. þingmann með því að segja honum að mig grunar að hann sé að éta hrátt ýmsa frasa sem eru í umræðunni og eru því miður einfaldlega rangir. Það er nefnilega þannig í íslenskum lögum og ekki er lögð til nein breyting á því í frumvarpinu sem við erum að ræða hér — ég ætla fá að lesa upp úr lögunum. Þetta er í 36. gr. laga nr. 80/2016.

„Umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skal tekin til efnismeðferðar nema“ — og þá er í fyrsta lagi að umsækjandi hafi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki.

Í 2. mgr. þessarar greinar segir síðan í núgildandi lögum sem ekki er lagt til að breyta, með leyfi forseta:

„…skal þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því.“

Það er því ekki rétt sem hv. þingmaður hélt fram hér að einstaklingar sem t.d. hafa fengið vernd í öðru ríki, sem er sá hópur sem þetta frumvarp beinist ekki síst að, eigi ekki erindi í verndarkerfið eða eigi ekki erindi hingað til lands og eigi ekki erindi til að koma hingað og sækja um vernd. Þetta er hins vegar frasi sem hefur komið frá ráðuneytinu (Forseti hringir.) og hefur verið dálítið útbreiddur. Þetta er bara einfaldlega rangt. Samkvæmt núgildandi íslenskum lögum eiga þessir einstaklingar erindi í verndarkerfið. (Forseti hringir.) Þeir eiga rétt á því að fá umsókn sína skoðaða hér á landi og í kjölfar þess eiga þeir rétt á að fá hér fjögurra ára dvalarleyfi og óbundið atvinnuleyfi.

Ég held áfram í seinna svari. Spurning mín (Forseti hringir.) til þingmannsins er: Eiga íslensk stjórnvöld ekki að fylgja lögum?