Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:30]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fer ekkert ofan af því að á meðan fólk kemur hingað og það eru vissulega ekki miklar líkur á að það uppfylli kröfu kerfisins um að fá hér vernd, af því að það er ekki að flýja vegna þess að líf eða limir eru í hættu, og er þá á framfærslu hins opinbera á meðan, þá kalla ég það félagslegt kerfi. Í það minnsta er þá umsóknarferlið félagslegt. Svo tekur við annað kerfi sem við höfum hér. Fái þau dvalarleyfi geta þau lent á framfærslu sveitarfélaganna fái þau ekki vinnu eða finni sér ekki húsnæði og annað slíkt. Þannig að jú, stór partur af hópnum er þá alltaf í félagslegu kerfi. Því er verið að reyna að auka skilvirknina í þessu með því að hvetja fólk til að fara sjálft til baka, sem ég tel vera mjög mannúðlegt. Ég bara legg áherslu á að við eigum að hafa útlendingalöggjöfina okkar hér, að mínu viti, þannig að við tökum á móti þeim sem eru í raunverulegri hættu og þurfa nauðsynlega á vernd að halda. Við mikið meira ráðum við bara ekki sem lítið land. Þeir sem vilja koma hér og sækja um vinnu á eigin vegum, standa á eigin fótum — við getum alveg hugsað okkur að skoða einhverjar opnanir þar.