Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:31]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmanni má finnast hvað sem er um það hvernig kerfið eigi að vera hér á landi og hvernig lögin eigi að vera. Alþingi hefur samþykkt lög og þau eru með þessum hætti. Þessir einstaklingar eiga erindi í verndarkerfið, þau eiga rétt á vernd. Þetta er flóttafólk upp til hópa sem hefur gjarnan þegar fengið stöðu sína viðurkennda og í rauninni ætti að vera alger óþarfi að taka þau inn í þetta félagslega kerfi sem hv. þingmaður nefnir sem er málsmeðferðin þar til að stjórnvöld komast að þeirri niðurstöðu að viðkomandi fái að vera eða fái ekki að vera. Og ég er sammála hv. þingmanni þar, það ætti að stytta mun meira þann tíma sem fólk er í því kerfi — og í rauninni bara afnema það kerfi ef hann er að spyrja mig persónulega. Það sem er líka áhugavert við þetta svar þingmannsins er að Útlendingastofnun er sammála hv. þingmanni og finnst þetta fólk ekki eiga erindi í kerfið. Útlendingastofnun hefur þannig túlkað núgildandi lög og framkvæmt þau líkt og þetta ákvæði væri ekki þarna, líkt og lögin séu ekki svona, (Forseti hringir.) líkt og það sé þannig að fólk sem hefur fengið vernd í öðru ríki eigi ekki erindi í kerfið.

Ég ætla að spyrja (Forseti hringir.) hv. þingmann aftur: Eiga stjórnvöld ekki að fara að lögum?