Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:34]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í upphafi ræðu sinnar nefndi þingmaðurinn að hingað gætu komið 450 milljónir manna, eða EES-borgarar, og unnið. Síðan lýsti hv. þingmaður því yfir að í næsta hópi þar á eftir væri fólk sem væri að flýja stríð og það væri fólk sem við ættum að taka á móti. Það er vert að benda hv. þingmanni á að yfir 90% af fólkinu sem kom í fyrra kom frá þremur löndum; Úkraínu, Venesúela og Palestínu. Í Úkraínu geisar stríð, það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum. Í Venesúela er óöld, það er reyndar kannski nær því að kalla það hálfgert borgarastríð, enda er skilgreining Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sú að um sé að ræða fólk sem þarf að flýja aðstæður þar sem það þarf að óttast um líf sitt, það er nákvæmlega skilgreiningin á flóttamönnum í 37. gr. Í Palestínu hafa á undanförnu ári einmitt verið mikil átök milli Palestínumanna og Ísraela og eins og ég sagði þá voru 90% af þeim sem komu hingað í fyrra frá þessum þremur löndum. Þetta eru allt lönd sem þar sem er stríð. Hv. þingmaður sagði: Hvað ef allt þetta hitt fólk hefði ekki komið og við hefðum bara þurft að eiga við Úkraínu? Ég spyr þá á móti: Hvað ef við hefðum ekki þurft að díla við Úkraínu? Þá hefðum við kannski ekki verið með kerfið á þolmörkum? En ríkisstjórnin valdi að bjóða Úkraínumönnum hingað.

Önnur tölfræði: 90% af Venesúelabúum sem hingað hafa komið og fengið hæli eru komin í vinnu. Þetta er fólk sem vill vinna. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Eru þessir hælisleitendur sem koma frá þessum stríðshrjáðu löndum eitthvað verra fólk en það fólk sem kemur frá Evrópska efnahagssvæðinu?