Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:42]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Það er vandasamt að ræða viðkvæm mál og enn snúnara ef umræðan er að einhverju leyti þokukennd. Staðreyndin er þó sú að umrætt frumvarp gengur skemur að mati sumra en of langt að mati annarra. Málið hefur þó margoft verið lagt fram á Alþingi, tekið breytingum í meðferð og vinnslu en frumvarpið hefur fengið mjög góða umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd og er það vel. Áður fyrr var það svo að Ísland tók hlutfallslega á móti færri umsækjendum um alþjóðlega vernd en hin Norðurlöndin. Þessi tölfræði hefur tekið verulegum breytingum á síðustu árum og nú er staðan sú að Ísland er að taka á móti mun fleiri umsóknum um vernd en til að mynda Svíar sem hafa sögulega verið það land sem tekið hefur á móti flestum umsóknum. Ísland er einnig að fá mun fleiri verndarmál en önnur ríki í Evrópusambandinu um þessar mundir. Umfangið er orðið það mikið að kerfið okkar á erfitt með að hafa undan og því er nauðsynlegt að bæta skilvirkni kerfisins. Þannig getum við bætt og tekið utan um einstaklinga sem eru á flótta frá stríðshrjáðum löndum og eiga sannarlega heima í verndarkerfinu.

Í stóra samhenginu erum við því hér með frumvarp sem mikilvægt er að klára. Hér er ekki um heildarlausn að ræða á öllum áskorunum í málaflokknum en að mínum dómi eru hér ákveðin skref í rétta átt. Eins og verða vill í umdeildum málum fara á flug staðhæfingar sem ekki eiga við rök að styðjast. Því langar mig að ávarpa hér nokkur atriði sem ég tel mikilvægt að komi fram og snúa þau m.a. að skerðingu á þjónustu 30 dögum eftir að endanleg ákvörðun á tveimur stjórnsýslustigum liggur fyrir hjá umsækjendum.

Flestir sýna því skilning að ekki getur talist réttlætanlegt að veita einstaklingum áframhaldandi þjónustu þegar skýr niðurstaða liggur fyrir í máli þeirra að undangenginni réttlátri málsmeðferð. En þessi niðurfelling réttinda er ekki algild fyrir alla hópa í frumvarpinu. Um það snýst misskilningurinn. Er mikilvægt að staðreyndir málsins komi fram og að þeim sé haldið til haga. Þjónustan verður ekki skert hjá barnafjölskyldum, barnshafandi konum og ekki heldur hjá alvarlega veikum einstaklingum eða fötluðum, svo að það sé ítrekað. Þessir hópar fá áfram alla þá þjónustu sem þeir þurfa, jafnvel óháð því hvort þeir sýna samstarfsvilja eður ei. Með öðrum orðum, öll umræða um að svipta eigi fólk í viðkvæmri stöðu þjónustu á ekki við rök að styðjast. Þá vil ég einnig árétta að öll bráðaþjónusta verður áfram aðgengileg hér á landi enda hefur það verið stefna stjórnvalda á Íslandi og verður svo áfram.

Markmiðið með niðurfellingu á þjónustu 30 dögum eftir synjun er að þeir sem hafa fengið neitun um vernd geti ekki búið hér áfram á kostnað íslenskra skattgreiðenda. Umrætt ákvæði frumvarpsins kemur því eingöngu til skoðunar í tilvikum barnlausra og heilbrigðra fullorðinna einstaklinga sem dvelja hér á landi í ólögmætri dvöl og neita samvinnu við stjórnvöld við framkvæmd ákvörðunar um að yfirgefa landið. Verndarkerfið er mikilvægt og við eigum að sýna mannúð og kærleika þeim sem undir það falla. Málaflokkurinn þróast hratt og er alveg ljóst í mínum huga að flóttamannavandinn mun síst minnka á komandi árum og áratugum. Því verður löggjafinn að geta brugðist við breyttum aðstæðum og aðlagað löggjöfina í samræmi við áskoranir.

Virðulegi forseti. Mig langar einnig að ávarpa fleiri atriði sem koma fram í þessu frumvarpi en þar má nefna 9. gr. um mat á hagsmunum barns. Frumvarpið felur í sér innleiðingu barnvæns hagsmunamats við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Gert er ráð fyrir að undirbúningur að reglugerð um barnvænt hagsmunamat á umsóknum um alþjóðlega vernd verði samstarfsverkefni dómsmálaráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis. Er þetta ákvæði í samræmi við stefnu Framsóknar en í henni segir, með leyfi forseta:

„Þá vill Framsókn að mannréttindi barna á flótta séu tryggð og litið á þeirra hagsmuni fyrst og fremst við ákvarðanatöku um dvöl hér á landi og ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna séu í hávegum höfð.“

Veruleikinn er sá, virðulegi forseti, að það er ekki rétt sem hér hefur komið fram í umræðunni að löggjöf um alþjóðlega vernd sé strangari hér en annars staðar. Flest ríki sem við berum okkur saman við eru til að mynda með lokuð búsetuúrræði fyrir þá aðila sem hafa fengið niðurstöðu í sínum málum. Í ferð allsherjar- og menntamálanefndar til Danmerkur kom til að mynda í ljós að börn dvelja í slíku úrræði og sitt sýnist hverjum varðandi þann ráðahag. Ég hef hins vegar verið mjög hlynntur því að auka skilvirkni í málaflokknum eftir fremsta megni enda ótækt að fólk bíði örlaga sinna lengur en þörf krefur. Sjálfkrafa kærur til kærunefndar útlendingamála eru því skref í rétta átt að mínu mati. Mér þykir ástæða til þess að minna á að almennt hljóta verndarmál hér á landi ítarlega skoðun, m.a. á grundvelli ákvæðis um að útlendingur sem hefur sérstök tengsl við landið hljóti hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla fyrir því. Þetta er séríslenskt ákvæði sem sannarlega gengur lengra en í öðrum samanburðarríkjum. Til eru þeir sem berjast hér fyrir opnum landamærum og telja að Ísland eigi að skera sig úr hvað varðar möguleika fólks til dvalarleyfis í gegnum kerfi alþjóðlegrar verndar. Ég ber virðingu fyrir þeim skoðunum þótt ég sé þeim ekki sammála. Mikilvægt er að við gleymum ekki tilgangi þess kerfis sem við fjöllum hér um og ábyrgð löggjafans, sem felst m.a. í því að lög taki mið af aðstæðum og breytingum í málaflokknum á hverjum tíma. Gríðarlega mikið álag hefur verið í málaflokknum á undanförnum árum og þekki ég það vel úr mínu nærumhverfi.

Ég vil ítreka þá staðreynd að frumvarpið felur ekki í sér heildarlausn á þeim áskorunum sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir í málaflokknum en er þó vissulega skref í rétta átt. Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum. Íslenskt samfélag hefur skotið skjólshúsi yfir fólk í neyð og er ákvörðun stjórnvalda gagnvart flóttafólki frá Úkraínu gott dæmi um það.

Að lokum vil ég þakka nefndarmönnum fyrir góða samvinnu og þeim fjölda gesta sem fyrir nefndina hafa komið á undanförnum dögum. Ég þakka þeim kærlega fyrir.