Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og samstarfið í allsherjar- og menntamálanefnd, þótt það starf hafi því miður að mörgu leyti verið svolítið til málamynda að mínu mati. Ég ætla að beina sambærilegum spurningum til hv. þingmanns og ég beindi til hv. þm. Birgis Þórarinssonar hérna rétt áðan, þar sem mér fannst nálgun þeirra í ræðum sínum áþekk að mörgu leyti, en þær varða þjónustusviptinguna.

Ákveðinn hópur og margir fara í kjölfar synjunar, ýmist með flutningi stoðdeildar eða sjálfviljugir — náttúrulega ekki sjálfviljugir, en sjálfir. Sumir gera það ekki, þrátt fyrir að vera réttindalausir, án kennitölu og atvinnuleyfis, búa við mjög þröngan kost og kvarta mjög mikið undan aðstæðum sínum og líða mjög illa — ég þekki nokkra einstaklinga í þeirri stöðu — þrátt fyrir að eiga jafnvel kost á því sem hv. þm. Birgir Þórarinsson nefndi, mörg hundruð þúsund kr. styrk til að fara aftur heim og annað. Þrátt fyrir allt þetta eru einstaklingar sem, eins og það er orðað í lögunum, hjá stjórnvöldum og hv. þingmönnum sem hafa tekið upp orðalagið, sýna ekki samstarfsvilja við stjórnvöld við að koma þeim til ríkja þar sem þeir telja sér ekki vært.

Telur hv. þingmaður að einstaklingar sem ekki fara þrátt fyrir allt þetta muni fara ef þeir eru sviptir þessari algjöru lágmarksþjónustu? Gefum okkur að það séu einstaklingar sem muni ekki fara þrátt fyrir það. Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af áhrifum þess á íslenskt samfélag að hér verði hópur — og ég vísa í orðalag sem hv. þingmaður notaði — barnlausra fullorðinna einstaklinga, karlmanna, sem er heimilislaus og örvæntingarfullur, búinn að bíða í mörg ár og á sér engan kost? Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af áhrifum þessara aðstæðna á samfélagið, ef við leggjum mannréttindi þessara einstaklinga til hliðar? (Forseti hringir.) Þá vil ég líka leiðrétta að þótt hingað leiti karlmenn einir á ferð þá eru þeir gjarnan feður og makar, og fjölskyldur bíða enn í örvæntingu í flóttamannabúðum einhvers staðar í Líbanon eftir því að þeir fái lausn.