153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:04]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa tölfræðiyfirferð. Já, staðan er einfaldlega þannig að ef við horfum til að mynda til fjölda umsókna sem koma inn í hælisleitendakerfið frá fólki sem þegar hefur fengið vernd í öðru landi, þá eru þær umtalsvert fleiri. Það liggur bara fyrir, sem dæmi. Það er auðvitað hægt að velta fyrir sér tölfræðinni. Ég byggi og grundvalla upplýsingar í minni ræðu á þeim upplýsingum sem ég fæ frá yfirvöldum. Ef þær eru rangar þá er það eitthvað sem ég hef verulegar áhyggjur af, auk þess sem það þýðir auðvitað að fjöldinn allur af þingmönnum sé að fara með rangt mál í dag. Mér finnst það harla ólíklegt.

En umræðan er þokukennd, ég get alveg tekið undir það, og það þarf að skýra hana. Ég hef verið að gera tilraun til þess. Svo kann auðvitað líka að vera að fólk hafi mismunandi skoðanir og skilning á einhverjum ákveðnum þáttum þessa frumvarps. Það er í eðli sínu kannski ekkert óvenjulegt og kannski partur af því hversu mikilvægt er að ræða það, bæði í nefnd og ekki síst hér í þingsal. Ég held að það sé til bóta og við eigum að stefna að því að reyna að tryggja að frumvarpið sé eins vel úr garði gert og mögulegt er. Þess vegna verður það m.a. tekið inn á milli 2. og 3. umr.