Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:27]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir góða spurningu. Af tímaástæðum er þetta eitt af fjölmörgum atriðum sem ég ákvað að ávarpa ekki sérstaklega í minni ræðu en þetta er auðvitað hárréttur punktur og mikilvægt atriði. Þarna er ýmiss konar þjónustuniðurfelling og eitt af því er heilbrigðisþjónusta sem af þessu öllu telst kannski til einnar mikilvægustu grunnþjónustunnar. Í málsgögnum og í ræðum hér er oft farið í að tala um að nauðsynleg þjónusta sé undanþegin og þess vegna verði þetta í raun aldrei vandamál eða alla vega ekki nægilegt vandamál til að hafa áhyggjur af því. Hins vegar, eins og þingmaðurinn bendir réttilega á, og er bent á í umsögn landlæknis, þá er þetta kannski ekki svona einfalt. Við þekkjum það sérstaklega í geðheilbrigðismálum að svokölluð fyrirbyggjandi þjónusta er mjög nauðsynleg og að geta farið t.d. í reglulegar skimanir og eftirlit, og þá geta kannski komið fram hlutir sem þarfnast nánari skoðunar en þetta telst auðvitað ekki til neyðarþjónustu. Í þessu samhengi finnst mér svolítið merkilegar allar þessar áréttingar um að þetta sé ekki vandamál og fólk eigi oft rétt á neyðarþjónustu en samt er líka í hina röndina talað um að þetta eigi að senda skilaboð og einhvern veginn að fá fólk til að breyta hegðun sinni og verða samvinnufúsara. Það er einhvern veginn verið að reyna bæði að halda og sleppa, að þvinga einstaklinginn til að gera ákveðna hluti en samt á að vera alveg tryggt að þetta hafi engin neikvæð áhrif á viðkomandi. Ég fatta ekki alveg hvernig það gengur upp.