Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, sem hann flutti af mikilli yfirvegun, þó að ég sé ekki sammála ýmsu sem þar kom fram. Ég vil aðeins bregðast við því sem hv. þingmaður fór hér yfir varðandi tafir og börn. Það er þannig í gildandi útlendingalögum að þar eru alls kyns tímafrestir sem skiptir máli. Í framkvæmd hafa komið upp ýmis álitamál um hvað telst vera töf og hvað ekki. Gildandi lög eru óskýr um þetta atriði, því miður. Þessi óskýrleiki hefur m.a. leitt til þess allur vafi um hvað telst vera töf er túlkað umsækjandanum í hag, hafa ber það í huga, og það hefur m.a. leitt til þess að barn telst aldrei geta tafið mál sitt. Þetta hefur leitt til þess, því miður, að fjölskyldur hafa, og það eru þekkt dæmi þess, viljandi notað börn til að tefja málsmeðferð í því skyni að komast fram hjá framkvæmdum tímafrests og tryggja sér þannig vernd hér á landi. Það eru dæmi þess að börn eru falin skömmu fyrir brottvísun svo ekki sé hægt að framkvæma brottvísunina enda er ekki heimilt að senda foreldranna frá landinu ef börnin finnast ekki. Ef þetta leiðir til þess að umræddur tímafrestur klárast þá fær öll fjölskyldan vernd hér á landi.

Frumvarpið tekur fyrir að börnum sé beitt með þessum hætti og breytir framkvæmdinni þannig að háttsemi af þessu tagi teljist vera töf. Það er óeðlilegt, frú forseti, að fjölskyldur með börn á framfæri geti þvingað fram niðurstöðu sér í hag einfaldlega með því að tefja mál sitt viljandi. (Forseti hringir.) Ég vildi bregðast við þessu hér sem hv. þingmaður nefndi í sinni ræðu, að frumvarpið tekur fyrir það að börnum sé beitt með þessum hætti. Það er að sjálfsögðu aukin réttarvernd.