Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:36]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég fæ ekki séð að hér hafi nokkuð verið leiðrétt eða að einhver skoðanaágreiningur sé til staðar, hér eru einfaldlega deildar meiningar. Við þingmennirnir tveir röktum báðir út frá hverju ákvæðið er sett og hver tilgangur þess er. Við erum bara ósammála um nauðsyn þess og erum kannski að hugsa um mismunandi þætti þess og áhrif.

Mér finnst það, svo ég endurtaki það, ótækt að börn séu látin líða fyrir ákvarðanir foreldra sinna, sem er önnur leið til að forðast þau áhrif sem þetta frumvarp mun hafa, getur haft og mun mjög líklega hafa. Foreldrar hafa kannski stundað það í einhverjum tilfellum að, eins og má orða það líka, beita börnunum fyrir sér. En af hverju ættu börnin líða fyrir það? Og af hverju er það svona rosalega íþyngjandi að þurfa að taka umsóknir þessara barna til efnismeðferðar, að það megi ekki bara einfaldlega miðað við þessa 12 mánuði? Svo ætla ég bara á móti að varpa fram þeirri spurningu sem ég velti upp í ræðu minni: Hvert er umfang þessa vanda? Er þingmanninum kunnugt um hversu mörg tilfelli þetta eru sem er verið að taka á með þessu ákvæði og hvort þetta hafi kannski eitthvað breyst, t.d. eftir að Covid-faraldurinn hætti þar sem þetta stapp í kringum brottvísanir vegna þess að framvísa þurfi Covid-skilríki er ekki lengur til staðar? Liggur það fyrir?