Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég þekki ekki nákvæmlega umfangið í þessum tilfellum en þau eru til staðar. Það er ekki að ástæðulausu sem þetta ákvæði er sett inn. Að tefja mál sitt er náttúrlega eitthvað sem þarf að koma í veg fyrir og það er eitt af því sem hefur bara gerst í þessum málaflokki að hann er síbreytilegur, það eru að koma upp ný tilvik og þess vegna er mjög mikilvægt að uppfæra lögin. Ég hef nefnt það hér fyrr í ræðu að lögin sem við erum að styðjast við í dag voru samin á árunum 2014–2015 og eins og við þekkjum þá tóku lögin gildi 2016. Þetta er málaflokkur sem er síbreytilegur og m.a. það sem hefur gerst í þessum málaflokki er að tafir hafa aukist. Við þekkjum það með þessa tímafresti að t.d. ef umsækjandi er með vernd í öðru landi, Evrópuríki, þá þarf að ljúka málsmeðferð innan 12 mánaða og 10 mánaða ef um barn er að ræða. Þessi tímafrestur gildir ekki ef umsækjandi hefur sjálfur valdið því að málsmeðferð hans hefur tafist. Í síðara tilvikinu telst málsmeðferðinni ekki lokið fyrr en brottvísun hefur verið framkvæmd. Þannig að það er bara að raungerast að það er verið að leita leiða til þess að tefja málin svo þau séu tekin til efnislegrar meðferðar. Þar á meðal hefur börnum verið beitt í því tilviki og þetta ákvæði frumvarpsins tekur fyrir, eins og ég nefndi áðan, að börnum sé beitt með þessum hætti.