Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:01]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir ræðuna og fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Við erum oft ósammála en þó er það nú þannig að við erum sammála um margt og ég er sammála því sem hv. þingmaður nefndi undir lok ræðu sinnar varðandi það að við þurfum að vinna gegn andstöðu við aðkomufólk sem getur komið upp vegna komu mikils fjölda fólks til landsins. Ég er hins vegar ósammála því að það sé fjöldinn einn sem veldur þeirri andstöðu og að lausnin við því sé að takmarka fjöldann. Mig langar til þess að taka þar dæmi, sem hv. þingmaður nefndi sjálfur í ræðu sinni, sem er Þýskaland Angelu Merkel. Hún sagði árið 2015 „flóttafólk, þið eruð velkomin“ og fékk mikla gagnrýni fyrir. Fyrir vikið kom talsvert stór hópur til Þýskalands, sannarlega. Ég held að það hafi verið ein milljón sem sótti um hæli í Þýskalandi það ár. Það sem kannski vekur athygli er hvernig Þýskaland hefur brugðist við því sem gerðist þarna. Þýskaland tekur af skarið og segir: Fólk er velkomið. Það hefði auðvitað verið farsælast ef aðrir þjóðarleiðtogar í Evrópu hefðu tekið undir þannig að Evrópa hefði öll staðið saman í því að taka á móti þessu fólki. Þá hefðum við ekki tekið eftir þessu vil ég meina. Hvað er Þýskaland að gera í dag? Þýsk stjórnvöld eru í dag að breyta útlendingalöggjöfinni með þeim hætti að auðvelda fólki, t.d. fólki sem hefur verið í því sem sumir kalla ólöglegri dvöl um árabil í landinu, að fá dvalarleyfi. Það er verið að auðvelda fólki aðgengi að ríkisborgararétti og það er verið að leggja mikla vinnu í inngildingu og það að fólk upplifi sig velkomið. Hver er tilgangurinn með þessu? Jú, tilgangurinn með þessu er að tryggja að fólk verði hluti af samfélaginu. Að fólk upplifi sig sem hluta af samfélaginu er lykillinn að því að (Forseti hringir.) það hagi sér sem hluti af samfélaginu og þetta eru Þjóðverjar búnir að uppgötva. Þau eru ekki að loka landamærunum í kjölfar þessarar reynslu (Forseti hringir.) heldur eru þau í rauninni að opna þau en einbeita sér að þessu.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um er hvaða leiðir hann vill nota til að takmarka (Forseti hringir.) fjöldann sem hingað kemur.