Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:06]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég gæti svo sem haldið lengi áfram á þeirri braut, enda held ég að við gætum rætt þessi mál út í hið óendanlega, enda höfum bæði áhuga á þeim þó að við séum kannski ekki alveg alltaf á sömu línu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem hann sagði í ræðu sinni varðandi það að við þyrftum að fara að aðskilja vinnumarkaðsmál og verndarmál. Nú er ég ekki sammála því, ég er einmitt á öfugri línu. Ég er á þeirri línu að við eigum að hætta að tala um flóttafólk sem kemur hingað sem eitthvað annað en fólk sem vill einfaldlega koma hingað og búa hér og byggja sér upp líf. Ég held að það að aðskilja þessa hópa sé villandi fyrir umræðuna. Vissulega er þörf á því að styðja flóttafólk framan af dvöl þess, mögulega að einhverju leyti umfram aðra hópa, en það er bara hluti sem félagslega kerfið tekur við eins og öllum öðrum. Hins vegar er þorri þessa fólks vinnufær og vinnufús. Þar er ég ekki með nákvæmar tölur en ég hvet hv. þingmann til að fletta upp tölum um atvinnuþátttöku flóttafólks frá Venesúela sérstaklega. Hún er sérdeilis mikil. Hún er umfram atvinnuþátttöku innflytjenda almennt að meðaltali. Ég tel ástæðuna kannski ekki síst vera þá að þessi hópur komst mjög hratt í gegnum verndarkerfið hjá okkur, og með verndarkerfinu á ég við málsmeðferðartímann, vegna þess að þau sluppu við Dyflinnarreglugerðina sem okkur finnst svo svakalega gaman að beita til þess að lengja málsmeðferðina hjá fólki. Það var tekin ákvörðun í dómsmálaráðuneytinu, nota bene, ekki af kærunefnd útlendingamála, um að veita þessu fólki vernd. Þannig að þau koma hingað, þau fá strax leyfi, líkt og með fólkið frá Úkraínu, fá strax tækifæri, öryggi, tækifæri til að komast inn í samfélagið. Þetta er lykillinn að því að fólk geti orðið virkir samfélagsþegnar.

Af því að ég er ekki sammála því (Forseti hringir.) að verið sé að rugla saman vinnumarkaðsmálum og verndarkerfinu, ég er á því að það sé einmitt ekki verið að gera það, þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað á hann við? Hvernig erum við að grauta þessu saman (Forseti hringir.) sem honum finnst að við ættum ekki að gera?