Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér aðeins á óvart að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að við séum ekki að grauta saman þessum tveimur kerfum í dag. Við gætum þurft að ræða þetta hér frammi á gangi eftir að þessum andsvörum er lokið. Mér finnst það bara blasa svo við að það er verið að grauta þessu tvennu saman núna. Við sjáum það t.d. bara að einn lítill angi af því er regluverkið sem var samþykkt á síðasta þingi varðandi samræmda móttöku, og fleira mætti telja til. Núna er t.d. verið að leggja niður Fjölmenningarsetrið á Ísafirði eða, réttara sagt, það er verið að láta það renna inn í Vinnumálastofnun. Vinnumálastofnun er að taka yfir þjónustuhlutverk við hælisleitendur eins og við þekkjum hér inni. Ég lít svo á að þetta sé bara skýrasta dæmið um að verið sé að renna þessu tvennu saman. Ég held að það sé alger eiturpilla inn í það að við getum raunverulega gert vel fyrir þá sem í mestri þörf eru því að við þetta verður ákveðin, að ég tel, eðlisbreyting á því hvernig við nálgumst verndarkerfið. Ég held að til að mynda atvinnuþátttaka þeirra sem hingað hafa komið frá Venesúela sé mjög há, 86% er síðasta tala sem ég hef heyrt, ég heyrði 90 fleygt hér fyrr í dag en ég ætla að halda mig við 86% sem er virkilega hátt. (Gripið fram í.) Ekki fráleitt að álykta það. Ef við horfum bara á þennan afmarkaða hóp þá blasir við að þarna ættu eflaust að mörgu leyti vinnumarkaðssjónarmið miklu frekar við heldur en verndarsjónarmið í mörgum tilvikum.

En bara til að klára Þýskalandsumræðuna þá var ég að glugga í skýrslu frá þýsku flóttamannastofnuninni, sem ég man ekki alveg hvað heitir í augnablikinu, en þar var úttekt á þeim sem komu til landsins 2015 og 2016. Þá var staðan sú árið 2021 (Forseti hringir.) að þeir sem höfðu verið í fimm ár í landinu, ég man ekki hvort það var 49 eða 51% atvinnuþátttaka eftir fimm ár. Af því atriði höfðu þýsk stjórnvöld greinilega verulegar áhyggjur.