Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:11]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að þingmaðurinn fjallaði um tvö lönd sem yfir 70% af hælisleitendum á síðasta ári komu frá. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að þingið hefði tekið ákvörðun um að taka á móti Úkraínubúum heldur var það einhliða gert af ríkisstjórninni og var það ekki einu sinni tilkynnt inn í þingið fyrr en eftir að það gerðist. Það er líka mikilvægt að halda því til haga að ákvörðun kærunefndar um Venesúela byggir á ákvörðun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna en þar segir, með leyfi forseta:

„Atburðir undanfarinna ára hafi raskað allsherjarreglu í landinu og sé líf þeirra, öryggi og frelsi því í hættu.“

Ef við förum í útlendingalögin þá er þessu beint að sömu skilgreiningu flóttamanna og hælisleitenda og samkvæmt 37. og 38. gr. laganna.

Hv. þingmaður talaði einnig um að við hefðum tekið á móti miklu hærra hlutfalli. Það var bent á það fyrr í kvöld að hlutfall t.d. Úkraínubúa sem hafa komið til Svíþjóðar er mun hærra en á Íslandi, jafnvel miðað við höfðatölu, og sama á við um Pólland.

Hv. þingmaður sagði að við ættum að taka á móti þeim sem raunverulega eru hjálpar þurfi og því langar mig að spyrja hv. þingmann: Þeir eru í raunverulegri neyð — (Forseti hringir.) hvað eigum við að taka á móti mörgum og ef ekki frá Úkraínu og Venesúela, þá hverjum?