Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:16]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er líka mikilvægt að muna að hingað hafa rúmlega 60.000 manns komið frá EES-svæðinu frá því það opnaði og hér búa í dag eitthvað um 50.000 manns sem hafa komið í gegnum það. Það setur sömuleiðis jafnvel meira álag á skólakerfið, heilbrigðiskerfið og annað, en okkur vantar líka fólk. Hv. þingmaður talaði um vinnumarkaðinn og að við þyrftum að passa að blanda þessu ekki öllu saman, en nú er það þannig að ef aðili utan Evrópska efnahagssvæðisins ætlar að sækja um vinnu hér á landi þá tekur það oft 6–12 mánuði. Þá er ég að tala um fólk sem er að koma frá Bandaríkjunum, ekki einhverjum fjarlægari löndum, öðrum menningarheimum eða neinu slíku. Það eru 6–12 mánuðir. Við þurfum greinilega líka að bæta skilvirknina þar.

Svo langar mig að benda hv. þingmanni á það að frá Venesúela hefur 7,1 milljón manns flúið og rúmlega 6 milljónir af þeim hafa sest að í löndum nær Venesúela — 6 milljónir. Það þýðir að 1,1 milljón er einhvers staðar annars staðar. Flestir þeirra hafa komið til Evrópu eða reynt að fara til Bandaríkjanna eða annarra svæða. En það þýðir að fólkið sem kemur hingað er að koma lengra að, rétt eins og fólkið sem kemur frá Úkraínu. En hlutfallslega, miðað við hvað önnur lönd eins og Kólumbía, Perú, Ekvador, Brasilía hafa tekið á móti mörgum af svæðinu þá erum við langt undir þeim. (Forseti hringir.) Það er bara allt annað en auðvelt að komast til Íslands frá Suður-Ameríku, sem kemur kannski þeim sem hafa ferðast þangað ekkert á óvart.