Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Áður en ég byrja, var spurning í andsvari þingmannsins? Ég held ekki en hv. þingmaður skýtur henni að mér ef hún var þarna falin inni á milli. Ég ætla aðeins að fá að halda áfram áður en ég kem að vinnumarkaðsmálunum og hversu langan tíma til að mynda tekur Bandaríkjamenn að komast hingað inn til að starfa. Ég held að það, eins og ég orðaði það áðan, að grauta saman vinnumarkaðsmálum og verndarkerfinu sé sérstaklega þeim til óþurftar sem hingað koma á forsendum verndarkerfisins. Varðandi atriðið sem hv. þingmaður nefnir, eins og t.d. hversu langan tíma getur tekið fyrir fólk að komast hingað inn sem kemur utan Evrópska efnahagssvæðisins þá skulum við setjast niður og sjá hvort ekki sé ástæða til að breyta einhverju þar. Við skulum ekki gera það í gegnum regluumhverfi verndarkerfisins. Það held ég að myndi raunverulega til lengri tíma skaða þá sem mest eiga undir því að verndarkerfið virki. Því er ég eiginlega alveg sannfærður um að við hv. þingmaður getum orðið sammála um að hægt sé að finna góðar lausnir þar á, sem eru frístandandi vinnumarkaðslausnir. Ég hef verulegar áhyggjur af því að ef þessu er grautað saman muni það veikja undirstöður verndarkerfisins, þess mikilvæga kerfis, til lengri tíma af margþættum orsökum, eins og ég kom inn á í ræðu minni. (Forseti hringir.)

Bæði af því að tíminn er liðinn og hv. þingmaður skaut ekki að mér spurningu þá ætla ég að láta þetta duga í bili. Hann nær mér í næsta hring.