Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:36]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þrátt fyrir áhugaverða yfirferð hv. þingmanns yfir hinar ýmsu greinar og undirgreinar þessa frumvarps ætla ég að víkja aðeins aftur að stóru myndinni í þessum málaflokki. Mér hefur heyrst á hv. þingmönnum Pírata að þeir telji nokkurn veginn að allir sem á annað borð sækja hér um hæli hljóti að eiga rétt á hæli vegna þess að þeir þarfnist þess. Fyrir því eru nefndar ýmsar skýringar en þó kannski einkum þær að enginn myndi sækja um hæli öðruvísi en að þurfa á því að halda. Ef nálgunin er sú og hún fer saman við það sem mér hefur líka heyrst margir hv. þingmenn Pírata halda hér fram, að það sé í rauninni ekkert hámark, það séu engin takmörk fyrir því hvað sé hægt ef það eigi að taka á móti mörgum, þá getur ástandið fljótlega orðið enn stjórnlausara en það er nú þegar.

Svo hefur líka verið rætt í umræðunni um ákveðin sveitarfélög. Það hefur verið nefnt að Reykjanesbær ráði ekki við móttöku fleira fólks t.d. og hafi sagt: Hingað og ekki lengra. Þá er öðrum sveitarfélögum legið á hálsi fyrir að bjóðast þá ekki til að taka við þeim mun fleiri. Ef við getum verið sammála um að það séu takmörk fyrir því hvað eitt sveitarfélag, Reykjanesbær til að mynda, getur tekið á móti mörgum getum við þá ekki líka verið sammála um að það séu takmörk fyrir því hvað eitt lítið land getur tekið á móti mörgum? Íbúum heimsins fjölgar um sem nemur íbúatölu Íslands á u.þ.b. 39 klukkustundum. Verðum við þá ekki að gera ráð fyrir því, hvað sem líður allri hugmyndafræði, (Forseti hringir.) að það hljóti að vera einhver takmörk fyrir því hverjum land af þeirri stærðargráðu getur tekið á móti.