Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:38]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir andsvarið. Þetta er ein mín uppáhaldsspurning þó að ég fari að verða svolítið þreytt á henni því að það er búið að svara henni svo oft en áfram heldur fólk að spyrja, kannski í von um einhverja tölu eða eitthvað slíkt. Nú hef ég verið viðriðin þennan málaflokk frá því að umsækjendur um alþjóðlega vernd á ári voru undir einum tug. Þegar ég hóf að vinna við þetta í fullu starfi var spáin upp á 60 manns það árið. Á þeim tíma var þessi spurning líka mjög vinsæl: Hvað getum við eiginlega tekið á móti mörgum? Hvað ef það koma 100 manns, hvað gerum við þá? Innviðirnir okkar ráða ekki við þetta. Við ráðum ekkert við þetta. Núna, bara fyrir mjög stuttu síðan komu hingað þúsundir manna frá Úkraínu og öðrum ríkjum. Ég veit ekki betur en að allt þetta fólk sé komið í húsnæði. Við töldum okkur ekki geta ráðið við þetta en við réðum við þetta.

Annað sem mér finnst skjóta skökku við, setja fókusinn á rangan stað í þessari umræðu, er þegar talað er um að taka á móti. Í þessu orðalagi finnst mér gjarnan felast sú trú að flóttafólk þurfi einhverja — að það þurfi að taka þau inn á sig og það þurfi einhvern veginn að hugsa um þau og sjá um þau. Flóttafólk er bara eins og annað fólk. Það sér um sig sjálft að mjög miklu leyti, langflest. Þau gera það eins og aðrir innflytjendur. Eins og ég nefndi áðan þá getur verið að það þurfi tiltekinn stuðning framan af sinni dvöl en það er eitthvað sem er ekki íþyngjandi fyrir þetta samfélag. Hingað flytja líka þúsundir Evrópubúa á ári hverju. Þau þurfa líka að búa einhvers staðar, þau þurfa líka að koma börnum sínum í skóla og vinnu. Það veit ég ekki betur en gangi bara vel. Ég hef einfaldlega engar áhyggjur af því (Forseti hringir.) hversu mörgum við getum tekið á móti vegna þess að ég held að ef við hættum að hugsa um það og fókusum á það að treysta innviðina okkar, (Forseti hringir.) byggja upp innviðina, þá þurfum við ekkert að hafa áhyggjur af þessu. Fólk fer þangað sem vinnu er að fá, það fer þangað sem húsnæði er að fá, það fer þangað sem það getur alið upp börnin sín og lifað eðlilegu lífi.