Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:41]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svo sem ekki að biðja um ákveðna tölu, ég er bara að biðja um viðurkenningu á því að það hljóti að vera einhverjum takmörkunum háð hversu mörgum og hversu hratt Ísland getur tekið á móti, 360.000 manna land. En af því að hv. þingmaður víkur að vinnumarkaðnum í svari sínu þá langar mig að spyrja aðeins nánar út í það. Maður heyrir stundum, m.a. í umræðu um þetta mál núna, og kannski ekki hvað síst frá tiltölulega hægri sinnuðum stjórnmálamönnum, að það þurfi einfaldlega að nýta þetta fólk sem vinnuafl, væntanlega þá í þeirri merkingu að okkur skorti ódýrt vinnuafl vegna þess að það séu ekki nógu margir landsmenn tilbúnir til að vinna hin ýmsu störf sem þarf að vinna fyrir þau laun sem eru greidd fyrir þau störf. Stundum reyndar ganga menn svo langt að tala um að við eigum sérstaklega að lokka til okkar eða ná af öðrum löndum fólki með verðmæta menntun, til að mynda hjúkrunarfræðinga og fólk í ýmsum undirstöðugreinum samfélagsins. Þá veltir maður fyrir sér siðferði slíks. Hvert er álit hv. þingmanns á því að við séum, eða önnur vestræn ríki, að reyna að ná til okkar fólki sem heimalandið er búið að fjárfesta í að mennta, þá iðulega og oft miklu fátækari lönd en við, ná því fólki sem er hvað mikilvægast fyrir uppbyggingu þeirra samfélaga?

Annars vegar þetta og svo hitt að það eigi bara að láta fólk vinna almennt, láglaunastörf eða annað. Ef við lítum ekki til þess hversu ólíkar aðstæður á vinnumarkaði eru, tekjur hér og víða annars staðar í heiminum, mættum við þá ekki (Forseti hringir.) vænta þess að hér kæmi mjög margt fólk sem væri til í að vinna fyrir töluvert minna heldur en Íslendingar almennt sætta sig við?