Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mér var létt að hv. þingmaður skyldi ná jafnréttiskaflanum inn í þessa ræðu sína, en frestaði honum ekki til næstu ræðu. Ég hafði lesið nefndarálit 3. minni hluta og var að velta fyrir mér því sem snýr að kaflanum sem heitir Mat á jafnréttisáhrifum, í samhengi við það sem segir á 6. bls. í kafla sem heitir Svipting réttinda að 30 dögum liðnum, en þar segir, með leyfi forseta:

„Með 6. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 33. gr. laganna þess efnis að fólk verði svipt þessari lágmarksaðstoð að 30 dögum liðnum eftir endanlega synjun á stjórnsýslustigi.“

Síðan heldur áfram atriði sem ég ætlaði að tengja við jafnréttisáhrifin:

„Undanþegin þjónustuskerðingunni skulu vera börn, foreldrar eða umsjónarmenn þeirra og ættingjar, barnshafandi konur, alvarlega veikir einstaklingar og fatlaðir einstaklingar með langvarandi stuðningsþarfir.“

Þýðir þetta ekki í raun að eini hópurinn sem það regluverk sem við ræðum hér hefur áhrif á eru heilbrigðir fullorðnir karlmenn? Er í raun öðrum til að dreifa? Minnið gæti aðeins verið að svíkja mig en mig minnir að ég hafi séð af tölfræðinni að það sé fátítt að konur komi hingað án fjölskyldu eða án barna, þannig að þær falla þá augljóslega undir þetta undanþáguákvæði. En eru jafnréttisáhrifin af þessu frumvarpi í raun ekki þau, lítil eða mikil sem þau kunna að vera, að þau lenda hér um bil eingöngu á heilbrigðum karlmönnum sem eru komnir af yngsta aldursskeiði?