Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:48]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurninguna. Ég tel alveg ljóst að þessu ákvæði sé beint að þeim hópi, fullorðnum hraustum karlmönnum, að mati Útlendingastofnunar, hvernig sem það mat fer fram. Ekki það að síðan á lögreglan einhvern veginn að meta það líka þrátt fyrir að hafa engin gögn um ástand fólks eða annað. Það er allt mjög útpælt í þessu frumvarpi, eða hitt þó heldur. Konur eru ekki upptaldar sem sérstakur hópur í þessari upptalningu. Í þessari upptalningu er heldur ekki fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu eða annað opið til að fella þann hóp undir.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er ekki mjög algengt að hingað komi konur einar á ferð. Það gerist hins vegar og það er slatti þó að það séu kannski ekki tölfræðilega háar prósentur. Það sem er áhugavert í þessu samhengi er að þær einstæðu konur sem eru einar á ferð, sem t.d. ég hef haft afskipti af í minni vinnu, eru akkúrat konur sem eru að flýja kynbundið ofbeldi. Þær eru að flýja kynbundið ofbeldi, gjarnan frá ríkjum sem Ísland hefur sett á lista yfir örugg ríki. Þar er ég að tala um ríki á borð við Albaníu, Kósóvó, Makedóníu. Þessar konur fá synjun um vernd þrátt fyrir að það liggi fyrir að lögregla í þessum ríkjum aðstoðar þær ekki. Einhvers staðar á blaði er búið að setja á fót eitthvert kvennaathvarf eða eitthvað annað slíkt. Menningin í þessum löndum er gjarnan sú að þær eiga í engin hús að venda og hafa orðið fyrir miklu ofbeldi, t.d. af hálfu maka. Fjölskyldan þeirra segir þeim að fara heim aftur til makans. Lögreglan hlær upp í opið geðið á þeim og þær fá synjun um vernd hér á landi. Þessar konur sem hafa verið beittar kynbundnu ofbeldi, svo alvarlegu að þær hafa séð ástæðu til að flýja land, myndu missa þjónustu án nokkurs vafa í mínum huga samkvæmt þessari breytingu. Ég þakka hv. þingmanni því fyrir spurninguna.