Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:53]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Nei, ég man ekki eftir öðrum dæmum um það. En ég þori að veðja á að ef slík dæmi fyrirfinnast er það í tengslum við einhverjar breytingar á lögum um útlendinga; það kæmi mér á óvart ef svo væri ekki. Það vekur einmitt upp miklar áhyggjur hversu oft kemur fram, í greinargerð með þessu frumvarpi, að ekki sé þörf á að skoða eitthvað sem augljóst er að þörf er á að skoða. Það er augljóst að þörf er á að skoða og meta áhrif þessara breytinga á kynin eftir mismunandi hætti þó ekki sé nema í ljósi þess dæmis sem ég tók hér rétt áðan.

Vegna þess sem hv. þingmaður sagði í fyrri hluta seinna andsvars síns, þ.e. að við lestur ákvæðisins og greinargerðar telji hv. þingmaður líklegt að þessar konur myndu falla undir þessa undanþágu, vil ég nefna aðra breytingu sem kemur fram í breytingartillögu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar við frumvarpið sem ég held að sé klaufaskapur, ég vona það. En það er eitt „og“ sem er tekið út úr frumvarpinu í ákveðinni upptalningu. Þetta „og“ er tekið út og það gerir það að verkum að einstaklingur sem kemur frá landi sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki er sviptur þjónustu, alveg sama hvað, þó að hann sé í þessum undanþáguflokki. Það er vegna þess að þetta „og“ var áður, er í núgildandi lögum, milli hugtakanna „kemur frá ríki sem er á lista yfir örugg ríki“ og „umsóknin var metin bersýnilega tilhæfulaus“. Umsagnir þessara kvenna, sem ég var að nefna hér áðan, sem eru að flýja kynbundið ofbeldi, eru stundum ekki metnar bersýnilega tilhæfulausar en þeim er samt synjað af því að þær koma frá þessum frábærlega öruggu ríkjum. Með þessum breytingum, með því að taka þetta „og“ út, er verið að taka skilyrðið um að umsóknin hafi verið metin bersýnilega tilhæfulaus út. Bara það að þú hafir komið frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki og umsóknin þín var ekki metin bersýnilega tilhæfulaus, þ.e. talið var að það væri eitthvað til í henni, þá dettur þú samt út. (Forseti hringir.) Ég hef bara enn meiri áhyggjur af þessum hópi eftir þetta spjall okkar og ég þakka hv. þingmanni fyrir.