Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem ekki situr í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, hvort hann sé margs vísari eftir þá umræðu sem hefur átt sér stað hér í dag, hvort hann telji að umræðan sé mögulega á einhvern hátt þokukennd, eins og hefur verið bent á hér, hvort hann greini einhverja tilhneigingu til þess að sá kornum tortryggni í garð þeirra sem koma hingað í leit að vernd og hvort við séum kannski á svipuðum stað og við vorum hér fyrir nokkrum árum.

Það er svolítið sérstakt með þessa umræðu að maður hefur það á tilfinningunni að hún hafi lítið þroskast hjá einhverjum hv. þingmönnum miðað við hvaða aðstæður við erum að fást við í dag. Það er verið að draga fram ræðu sem flutt var 2018 þegar aðstæður í heiminum voru bara allt aðrar en í dag og bera einhvern veginn saman stöðuna og þörf fyrir það að ríki standi saman og veiti fólki sem er að flýja stríð vernd, geri það með fullnægjandi hætti og leysi úr þeim verkefnum sem rata hingað að ströndum Íslands.