Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:08]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, mér finnst stundum eins og það skorti mikið upp á hlustun þegar við erum að ræða hlutina, hvort sem það er í nefndum eða hér inni í þingsal. Sömu frösunum er alltaf slegið fram aftur og aftur. Jafnvel þegar þeir eru leiðréttir þá er haldið áfram að nota þá. Nú sit ég ekki í hv. allsherjar- og menntamálanefnd en ef allir þeir umsagnaraðilar sem ég var að telja upp áðan voru að segja alla þessa hluti við nefndarfólk og ekkert af því rataði inn í nefndarálitið hjá meiri hlutanum þá bara spyr ég mig hvort meiri hlutinn hafi yfir höfuð verið að hlusta. Eða voru bara allir svona eins og krakkarnir í dag með heyrnartól á höfðinu að horfa á TikTok eða eitthvað? Ég bara spyr. Ég vona að vinnulagið sé ekki svona í hv. nefndum þingsins, ég hreinlega trúi því ekki.

Það sem kemur hér fram, allar þessar umsagnir — ég hefði haldið að fólk hefði lesið þær og hugsað: Hvað getum við gert til að taka á þessu? Hvað getum við gert til að passa að við tryggjum rétt barnanna? Hvað getum við gert til að tryggja konur í erfiðri stöðu? Allir þessir hlutir. Hvað eigum við að gera til að tryggja að réttindi hinsegin fólks séu virt í þessu ferli? Það er það sem ég trúi þegar ég heyri forsætisráðherra tala (Forseti hringir.) um jafnréttismál og mannréttindi, ég trúi því að hún sé til í að berjast fyrir þessu. Þess vegna skil ég ekki af hverju það er ekki að koma inn í þetta frumvarp eins og allt annað.