Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:13]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sitt seinna andsvar. Mig langar að byrja á því að segja að sýndarsamráð er ekki eitthvert hugtak sem ég fann upp, það er reyndar bara jafn gamalt og ég. Það var Sherry nokkur Arnstein sem kom með þetta sem hluta af hinum fræga samráðsstiga sínum sem hún bjó til í tengslum við skipulagsmál — svona fyrir ykkur sem viljið fræðast eitthvað meira um það. Þetta var eitt af lægri þrepunum í stiganum sem gekk einmitt út á það að láta alla halda að það væri samráð en hlusta í rauninni ekki á neitt.

Ég treysti því að góð vinna sé unnin í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég veit það bara úr mínu nefndarstarfi úr atvinnuveganefnd að við tókumst t.d. í vor á um erfið mál. Það var samt hlustað. Það er munurinn sem ég sé. Það komu inn athugasemdir frá umsagnaraðilum, það komu líka inn athugasemdir frá okkur í minni hlutanum og það var unnið inn í nefndarálitið. Þegar við vorum t.d. að tala um eftirlit Fiskistofu með brottkasti þá var mikið um persónuverndarmál og önnur atriði sem við komum með þar inn og þar unnum við virkilega góða vinnu saman í að búa til frumvarp sem við gátum öll staðið fyrir. Ég trúi því að það sé hægt en þá þarf að hlusta og þá þarf fólk að vera tilbúið til að taka umræðuna um hvernig við lögum þetta, ekki bara „svona á þetta að vera og við breytum engu“.

Hv. þingmaður benti á að það eigi að laga eitthvað í þriðju umferð. Af hverju ekki að segja okkur það núna svo að við getum talað um það (Forseti hringir.) og getum komið með okkar „input“, afsakið, okkar tillögur, (Gripið fram í: Viðbót.) viðbót, bara passað málið, frú forseti, okkar viðbót við þær breytingartillögur strax?