Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:21]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Því miður veit ég ekki tölfræðina en ég skal komast að henni og reyna að koma henni á framfæri við hv. þingmann. Það hefur hins vegar komið fram í umræðum fyrr í dag að ekki er haldið sérstaklega utan um hælisleitendur sem hafa komið hingað vegna mansals, sú tölfræði er því bara hreinlega ekki til. Það er náttúrlega af hinu slæma, við viljum geta tekið upplýstar ákvarðanir og þá viljum við náttúrlega að þessi tölfræði sé aðgengileg. Að sama skapi virðist, alla vega síðast þegar ég tékkaði, Útlendingastofnun ekki gefa út jafn ítarlega tölfræði fyrir síðasta ár og hún gerði fyrir árin þar á undan, en það gæti hafa breyst frá því að ég kíkti fyrir nokkrum dögum.

Ég bendi bara á það sem Kvenréttindafélag Íslands benti á, að það teldi að 1. gr. jafnréttislaga væri ekki virt, að það væri ámælisvert að ekki væri minnst á konur í viðkvæmri stöðu, aðrar en ófrískar konur eða mæður, og að þetta myndi jafnvel auka hættu á að fólk lenti í mansali. Allt eru þetta hlutir sem hefði átt að taka tillit til eða átt að fara í gegnum sem hluta af því hefðbundna ferli sem frumvörp í dag fara sem betur fer í gegnum, þ.e. mat á jafnréttisáhrifum, mat á stjórnarskrá og annað. En hvað stendur í greinargerð með frumvarpinu? Ekki er talin þörf á því. Hvað er þetta annað en þörf? Það eru þau vinnubrögð sem ég er ekki sáttur við. Ég vil að lagt sé mat á þessa hluti vegna þess að það er ástæða fyrir því að það var sett inn í verklagsreglur okkar og þingsköp og annað.