Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:24]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar sérstaklega að þakka fyrir umræðuna sem hefur farið fram hér í dag, hún hefur verið mjög upplýsandi. Þeim stjórnarliðum sem hér hafa tekið til máls hefur sérstaklega verið annt um tvo hluti, að komast að því hversu mörgu fólki á flótta við getum tekið við og hversu mikilvægt það sé að kerfið sé skilvirkt. Mig langar svolítið að komast að því hvað stjórnarliðar telja skilvirkni. Er það skilvirkni að fara í gríðarlega kostnaðarsama framkvæmd til að vísa fólki úr landi með valdi? Ég segi nei. Er það skilvirkni að neita fólki um möguleika á að vinna og halda því á framfæri ríkisins? Ég segi nei. Stjórnarliðar hafa líka haft áhyggjur af getu sveitarfélaga til að taka við flóttafólki. Það hefur býsna lengi verið til vandræða að ríkið tryggi sveitarfélögunum fjármagn og einmitt með því að svipta fólk í leit að vernd og aðstoð er ábyrgðinni velt yfir á sveitarfélögin. Mér finnst eins og að það fari ekki alveg saman hljóð og mynd.

Nú hef ég reynslu af því að starfa í sveitarstjórnum og það er verulegt vandamál þar að tryggja fjármagn í verkefni. Svo verður stjórnarliðum tíðrætt um samanburð við önnur lönd og telja okkar löggjöf einhvern veginn öðruvísi. Þó það nú væri að okkar löggjöf sé öðruvísi, löndin sem við berum okkur saman við eiga líka langflest landamæri að öðrum löndum. Þannig mun okkar löggjöf alltaf taka mið af því að Ísland er eyja. Það hefur stundum verið sagt að ef þú heldur að þú getir ekki eitthvað sé nánast öruggt að þú hafir rétt fyrir þér. Mér finnst það blasa við, þegar ég hlusta á ræður stjórnarliða, að þau treysta sér ekki í það verkefni sem móttaka fólks á flótta er öðruvísi en að það sé eitthvert vandamál sem þurfi að leysa með því að bæta við takmörkunum og herða reglur. Ég kalla eftir hugarfarsbreytingu. Við þurfum einfaldlega að horfa á þetta verkefni öðrum augum. Það er mjög gagnlegt að hafa góðan töflureikni við fjárlagagerð en í þessu verkefni getur það beinlínis verið skaðlegt.

Ég ítreka ákallið um að hlustað sé á hagsmunaaðila í málaflokknum. Það fólk þekkir viðfangsefnin og getur leiðbeint um lausnirnar. Ég ítreka það sem ég sagði í andsvörum við hv. þm. Jóhann Friðrik Friðriksson: Samráð sem ekki á möguleika á að hafa áhrif á ferlið er ekki samráð heldur í besta falli einhvers konar áheyrn. Mér þykir það því miður vera sóun á tíma allra að leita umsagna en nýta þær síðan ekki. Því var haldið fram hér áðan að það þýddi að taka yrði öll sjónarmið inn. Nei, það er ekki það sem það þýðir. Það sem þetta þýðir er að taka málefnalega afstöðu til þeirra athugasemda og ummæla sem koma fram. Umsagnaraðilar eiga ekki tilkall til að móta ferlið en ef allar umsagnir sem mótmæla efni frumvarpsins eru hunsaðar, ef allar umsagnir sem benda á mögulegt brot á stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum eru hunsaðar, til hvers var þá verið að kalla eftir þeim? Þetta snýst um að umsagnaraðilar hafi möguleika á að hafa áhrif á ferlið. Ef hægt er að sitja og hlusta á tugi umsagnaraðila án þess að taka nokkurt tillit til þeirra áhyggjuefna sem fram koma þá kalla ég það sýndarsamráð.

Mér þykir afar miður að hér eigi að horfa það vélrænt á málin að fórna eigi mannúð fyrir skilvirkni. Mig langar samt að fá skýringu á því í hverju sú skilvirkni felst. Felst hún í því að starfsmenn Útlendingastofnunar þurfi að eyða sem minnstum tíma í hvert mál? Ef svo er mun þetta frumvarp ekki ná því markmiði. Eða felst skilvirknin í því að við finnum eitthvert markmið um fjölda og höldum fjöldanum sem við tökum við innan við það, að búa til hærri girðingar og þrengri takmarkanir gagnvart því fólki sem leitar sér aðstoðar? Felst skilvirknin í því að hingað leiti ekki fleiri en einhver önnur ímynduð tala? Sé verið að leitast við að halda þeim fjölda sem við tökum við fyrir innan ákveðið takmark þykir mér það sorgleg nálgun. Þessi verkefni þarf að nálgast með allt öðrum hætti en þeim að við búum til eitthvert ímyndað takmark og gerum allt sem við getum til að hægja á komu fólks á flótta. Eins og ég rakti í ræðu minni áðan þá gerum við það ekki með eldsvoða, fótbrot eða barnsfæðingar. Það eigum við heldur ekki að gera við þessi mál. Þess fyrir utan átta ég mig ekki á því hvernig þetta frumvarp stuðlar að því að svo verði. Ef við erum að leitast við að hingað leiti færri vona ég innilega að ég sé að misskilja að það eigi að taka það harkalega á umsóknum þeirra sem hingað leita að fólk telji hag sínum betur borgið með því að leita annað. Ég skil ekki hvernig þetta frumvarp stuðlar að þessu takmarki og miðað við ræður stjórnarliða er ég ekki viss um að þau skilji það heldur. Ég átta mig hins vegar ekki á því hver af þessum valkostum er skilgreiningin á því hvað er skilvirkt. Ég kalla því eftir því að það verði skýrt í hverju þessi skilvirkni felst. Er það einhver þessara valkosta eða er markmiðið með þessum breytingum eitthvað allt annað? Vita stjórnarliðar yfir höfuð í hverju þessi skilvirkni felst? Ef ekki langar mig að benda á þá augljósu staðreynd að sá sem veit ekki hvert hann vill fara er mjög ólíklegur til að komast þangað.

Mig langar líka að tala aðeins um hver væri mín óskastaða til að auka skilvirkni kerfisins. Það væri að við stefndum að því að gera sem mest úr því fjármagni sem nýtt er þannig að við myndum draga úr þörfinni fyrir fjármagn. Því má ná fram með því að draga úr takmörkunum á atvinnu, með því að gera kerfið einfaldara og fljótvirkara fyrir umsækjendur, með því að fækka skilyrðum og takmörkunum og með ýmsum öðrum leiðum, t.d. með því að gera fólki kleift að vinna og nýta það fé betur sem nýtt er í brottvísanir. Staðreyndin er sú að hér hefur gullnu tækifæri til að ná árangri verið sóað með því að horfa fram hjá umsögnum og nýta ekki þekkingu sérfræðinga sem hafa verið boðnir og búnir að veita aðstoð, það blasir við þegar við skoðum þær umsagnir sem fylgja frumvarpinu. Þetta frumvarp er ekki að búa til skilvirkni eða draga úr kostnaði, það einfaldlega getur það ekki. Auk þess ítreka ég ákall um að við fáum hér til 2. umr. þær breytingar sem nú stendur til að gera á frumvarpinu svo að við getum rætt þær málefnalega. Annars erum við bara að horfa upp á endurtekið efni um sýndarsamráð þar sem við fáum bara áheyrn en engan raunverulegan möguleika á því að hafa áhrif á umræðuna. Nei, ég geri ekki ákall um það, ég hreinlega krefst þess. Annars erum við að horfa upp á nákvæmlega sama ferlið. Við erum að horfa upp á það að ákvarðanir eru teknar án þess að taka til greina önnur sjónarmið en eingöngu þau sem handvalin hafa verið í upphafi, sem myndi þá sýna án nokkurs vafa að ekki er um samráð að ræða heldur einfaldlega áheyrn.