Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að ég hafi leitast við að hafa minnihlutanefndarálit mitt eins stutt og skorinort og mér frekast var unnt hefur mér ekki tekist, í tveimur ræðum sem ég hef haldið undir þessum lið, að klára að fara yfir nefndarálitið mitt þannig að ég ætla að byrja á því. Eins og kom fram í nefndarálitinu mínu, og ég rakti í minni fyrstu og annarri ræðu, þá tel ég ekki að frumvarpinu sé raunverulega ætlað að ná þeim markmiðum sem stefnt er að samkvæmt greinargerðinni. Jafnvel þó að þær væru einlægar fullyrðingarnar þar, um tilgang og markmið laganna, tel ég ljóst að þær breytingar sem eru lagðar til í lögunum nái ekki þeim markmiðum, jafnvel þótt ég tryði því einlægt að að þeim markmiðum væri stefnt með frumvarpinu.

Að mínu mati hefur móttaka flóttafólks frá Úkraínu á undanförnum vikum og mánuðum sýnt að það er ekki brýn þörf að gera neinar lagabreytingar til að auka skilvirkni kerfisins til muna. Það þarf ekki að gera neinar lagabreytingar til þess að bregðast við auknum fjölda fólks sem hingað leitar að friði og lífsvon. Þau vandamál sem hafa verið viðvarandi í kerfinu á undanförnum árum, þrátt fyrir þær úrbætur sem gerðar voru með lögum nr. 80/2016, orsakast af óskilvirkri framkvæmd, ómannúðlegum viðhorfum — nú mega þingmenn meiri hlutans alveg reiðast mér en ég meina þetta mjög einlægt — sem veldur tregðu og töfum í kerfinu, auk skorts á skýrum verkferlum, þekkingu og þjálfun starfsfólks hjá stjórnvöldum sem sjá um þennan málaflokk.

Það sem helst einkennir þetta frumvarp — og ég mun segja þetta aftur og aftur hér í pontu vegna þess að ég meina þetta, þetta er ekki pólitísk píla, þetta er ekki ég að reyna að vera leiðinleg, alls ekki — eru fordómar gagnvart flóttafólki, skortur á mannúð og virðingu fyrir fólki á flótta. Í frumvarpinu felst tilraun til að skerða réttindi flóttafólks og firra það raunhæfum úrræðum til að leita réttar síns samkvæmt stjórnarskrárbundnum mannréttindareglum. Þá felur samþykkt þessa frumvarps í sér mjög óvandaða lagasetningu þar sem ítrekaðar alvarlegar athugasemdir sérfróðra aðila hafa verið virtar að vettugi.

Það sýnir best forgangsröðun sitjandi ríkisstjórnar að í stað þess að takast á við þær áskoranir sem hljótast af auknum fólksflutningum með uppbyggingu innviða og úrræða til að tryggja tækifæri fólks til inngildingar í samfélaginu þá setur ríkisstjórnin og meiri hlutinn á Alþingi aðför að réttindum fólks á flótta í forgang. Ég tel slíka ágalla á þessu máli að ekki sé unnt að gera nægilegar lagfæringar á því svo að una megi við að það verði samþykkt sem lög frá Alþingi. Ég hef því lagt til að þessu frumvarpi verði hafnað hér í þingsal. Það er ekki eingöngu vegna þess að ég er svo upptekin af mannúð og öðru sem ég er andvíg þessu frumvarpi, ég er það af öllum ástæðum. Jafnvel þó að maður ætlaði sér að vera ofsalega duglegur og góður rasisti þá er þetta frumvarp ekki gott. Þetta er ekki góð leið til að ná neinum þeirra markmiða sem stefnt er að. Þegar ég reyni að útskýra þetta fyrir fólki þá vaknar oft spurningin, held ég, hjá fólki sem telur frumvarpshöfunda vera að vinna einlægt að því að reyna að gera eitthvert gagn, reyna að bæta þetta kerfi — ég trúi því jafnvel að einhvers staðar sé það upphaflega hugsunin sem er verið að reyna að setja í form.

En hvað er þá verið að gera með þessu frumvarpi? Hvað er verið að gera með því ef ekki er verið að auka skilvirkni, bæta verkferla, straumlínulaga kerfið og allt þetta, sem ég mun fara mjög ítarlega í að er ekki verið að gera? Það er verið að bregðast við öllum þeim ákvörðunum sem Útlendingastofnun hefur tekið sem hafa ekki verið taldar standast lögin eins og þau eru nú. Þetta eru ákvarðanir sem lúta t.d. að því að einstaklingur er talinn hafa valdið sjálfur töfum á máli sínu þegar ekki er við hann að sakast, eins og t.d. með því að framvísa fölsuðum skilríkjum. Það að framvísa fölsuðum skilríkjum eru ekki tafir á ábyrgð umsækjanda. Helmingur flóttafólks neyðist til að nota önnur skilríki en sín eigin eða nota óreglulegar leiðir til þess að komast hingað.

Kerfið okkar er þannig upp byggt að ef þú kemur hingað og ert flóttamaður þá áttu rétt á vernd. En þú mátti ekki koma hingað. Það eru engar löglegar leiðir fyrir fólk til að koma til Íslands til að sækja um alþjóðlega vernd. Ég vil benda á það. (Forseti hringir.) Þetta hefur Útlendingastofnun túlkað sem tafir umsækjanda á málsmeðferð. Þessum lögum, þessum lagabreytingartillögum, er m.a. ætlað að lögfesta það og fleira sem ég mun koma að í ræðu minni. Ég óska eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.