Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er ekki nema von að hv. þingmaður spyrji að þessu. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að Útlendingastofnun líti á það sem hlutverk sitt — og ég get fært málefnaleg rök fyrir þessu í ræðum mínum með vísan í heimildir, þetta er ekki ég að dylgja eða segja eitthvað af tilfinningasemi — að takmarka þann fjölda sem leitar hingað til lands og ég held að það eigi sérstaklega við um flóttafólk. Það eru fjölmörg dæmi um þetta. Kannski er skýrasta sönnunin á þessu orð sem forstjóri Útlendingastofnunar lét falla í viðtali fyrir nokkrum árum þar sem hún kvaðst líta á sig sem útvörð hins íslenska velferðarkerfis. Bara þau orð sýna ákveðin viðhorf og sýna líka ákveðinn misskilning en útskýra ofboðslega margt.

Eins og ég sagði þá trúi ég því ekki að fólk sé vont, ég trúi hins vegar að fólk geti kerfisbundið dottið ofan í eitthvert hlutverk og gert hluti sem það myndi ekki gera ef það myndi beita meira einstaklingsbundinni gagnrýninni hugsun, sem er eitthvað sem mun bjarga heiminum að mínu mati. Ég held ekki að það sé þannig. Ég held hins vegar að í hvert skipti, og ég mun sýna fram á þetta allt saman, sem fjöldinn eykst, þegar eitthvert munstur kemur í umsækjendahópinn um alþjóðlega vernd, þá bregðist Útlendingastofnun við með einhverjum hætti, oft með mjög kjánalegum hætti, oft með lögfræðilega röngum hætti. Viðbrögðin eru oft svolítið tilfallandi. Það er ekki nein heildarhugsun þar á bak við önnur en sú að við þurfum að takmarka þann fjölda sem kemur hingað. Við getum haft einhverja framkvæmd ef það tryggir að ekki séu of margir að koma þarna og ekki of margir hérna, eða eitthvað þannig. Ég held að þetta sé ekki neitt sérstaklega meðvitað eða ákveðið. (Forseti hringir.) Það er m.a. þess vegna sem við sem höfum unnið með flóttafólki í mörg ár höfum kallað eftir opinberri stefnu í málefnum flóttafólks vegna þess að annars verður stefnan til einhvern veginn sjálfkrafa og þá verður hún svona. Það er það sem við höfum séð.