Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:06]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég heyri að hv. þingmaður, ekki að það komi á óvart, er gagnrýnin á fleiri Evrópuríki en okkur. Ég tek undir það að það er margt sem við getum lært af nágrannaþjóðum okkar, m.a. Noregi, og það er auðvitað það sem við höfum verið að gera. Við sjáum það í greinargerðinni, að gildandi útlendingalög, þau sem eru þar á undan, eru smíðuð eftir norskri fyrirmynd.

En mig langaði að spyrja hv. þingmann að öðru. Þó að ég hafi ekki komið hér upp reglulega í andsvör undanfarna daga hef ég setið og hlustað. Það er mjög mikilvægt, sérstaklega að hlusta á fólk eins og hv. þingmann, sem hefur talsvert vit á þessum málaflokki, og nefndarmenn og aðra, ég hef verið að hlusta á framsögu þeirra. Ég hef tekið saman ýmislegt sem þar hefur farið fram og langar til að spyrja út í það: Telur hv. þingmaður þörf á því að gera breytingar á íslenska verndarkerfinu svo að við getum betur forgangsraðað fólki á flótta? Og þá kemur að því sem ég hef tekið saman, og hv. þingmaður má endilega leiðrétta mig ef samantektin er ekki rétt, felast breytingarnar í því, eða er það rangur skilningur hjá mér, að það eigi að opna vinnumarkaðinn fyrir fólki utan EES? Eða, ef það þarf að gera breytingar, felast þær þá í því að það eigi einfaldlega að veita öllum hæli í gegnum verndarkerfið án tillits til þess hvort þeir uppfylla skilyrði sem er auðvitað í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og skilgreiningar?