Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið aftur og ég meina það einlægt. Mér finnst mjög gaman að hafa hv. þingmann með í þessari umræðu. Nei, þetta er ekki rétt skilið og ég velti fyrir mér hvað ég hef sagt sem hefur gert það að verkum að hv. þingmaður hefur skilið mig með þessum hætti.

Það eru ýmsar breytingar sem ég myndi vilja gera á framkvæmdinni sem ég tel að myndu auka skilvirkni í þessum málaflokki; spara ríkinu stórfé, minnka þjáningu fólks og gera það þar með betur í stakk búið til að verða hluti af samfélaginu. Með því á ég ekki endilega við að það stökkvi út á vinnumarkaðinn. Ég er bara að tala um að það þurfi ekki hreinlega margra ára geðheilbrigðisaðstoð til að vinna úr því tráma sem það verður fyrir í málsmeðferðinni hér á landi. Við erum með fjölmörg dæmi um það sem eru mjög sorgleg og eitt reyndar alveg sérstaklega sorglegt sem ég get rætt við þingmanninn prívat.

En við erum beinlínis að skemma fólk með þessu kerfi og ætlumst síðan til þess að það stökkvi bara beint í vinnu. Við sjáum það t.d. á atvinnuþátttöku flóttafólks frá Venesúela, ég minntist líka á þetta í ræðu minni í gær, en það er sérstaklega hátt hlutfall, alveg ótrúlega hátt, sem fer fljótlega á vinnumarkað eftir komu. Það er í sjálfu sér bara mín kenning og mín tilfinning en ég held að ekki sé síður hægt að rekja þetta til þess að þarna eru einstaklingar sem hafa ekki verið lengi á flótta og fljúga í gegnum kerfið hér.

Það sem ég held að við séum að gera vitlaust er akkúrat tregðan. Ég held að við getum lagað margt, t.d. held ég að við ættum að hætta að senda fólk til Grikklands. Við eigum að hætta að endursenda. Þá ætla ég að segja: Já, mér finnst að við eigum að taka á móti öllum sem koma hingað og hafa fengið stöðu flóttamanns í Grikklandi. Ég ætla bara að segja það hreint út að mér finnst að við eigum ekki að taka mál þeirra til efnismeðferðar og spyrja þau upp á nýtt af hverju þau hafi flúið Sýrland. Mér finnst við eigum að beita 47. gr. laganna og veita þeim vernd. Þetta þýðir að við getum afgreitt þessar umsóknir, ég vona að Miðflokkurinn sé að hlusta, á 48 tímum. Hvernig væri það nú?

Ég hins vegar held að kerfið vilji þetta ekki, þó að enginn hafi nokkurn tíma tekið þá ákvörðun. Þetta myndi sannarlega fjölga þeim einstaklingum sem fengju vernd hér á landi en ég held að það séu einhverjir tugir, ekkert einhver hundruð eða þúsund.