Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:32]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég get tekið undir margt í henni en ætla að staldra sérstaklega við það atriði — af því að það hefur kannski ekkert verið ávarpað sérstaklega hingað til, við höfum verið meira í efnislegri umræðu — að ég hef áhyggjur af því að til standi að afgreiða þetta frumvarp af hálfu meiri hlutans, að það sé jafnvel drjúgur meiri hluti fyrir því. Það er eiginlega mín tilfinning líka, að sú staðreynd að þetta er frekar þögull meiri hluti bendi til þess að ætlunin sé að afgreiða þetta svolítið í kyrrþey og taka ekki umræðu um málið.

Ég tek undir það sem margir þingmenn hafa sagt hér, þ.e. að umræðan hafi að mestu eða jafnvel öllu leyti verið málefnaleg og upplýsandi. En það vantar stóran hluta stjórnarliða inn í umræðuna og þá helst þá stjórnarliða sem maður hefði haldið að væru kannski aðeins á öndverðum meiði við upplegg ráðherrans sem leggur frumvarpið fram. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að þeir fulltrúar sem eru með ráðherranum í flokki séu alveg sammála og komi og styðji hann en mér finnst mjög vont að heyra ekki afstöðu þeirra sem maður hefði haldið að væru mögulega til í að taka að einhverju leyti undir með okkur hinum sem erum ósammála. Það koma eiginlega engin skilaboð um þá afstöðu annað en eitthvert óljóst loforð um að þetta verði allt lagfært eftir þessa umræðu alveg á lokasprettinum í nefndinni. Þá spyr maður bara: Af hverju var það ekki gert eftir 1. umr. í nefndinni? Af hverju er þetta strax tekið inn hér? Þar er einmitt vettvangurinn þar sem maður hefði haldið að hægt hefði verið að taka góða og djúpa umræðu um vel unnið mál.