Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:37]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta ágætt orðalag, að mýkja umræðuna. Með því að vera ekki að blanda sér of mikið í umræðuna, vera ekki að gefa nein önnur skilaboð en þau að í raun þurfi ekki að hafa áhyggjur af því hvernig þetta líti út núna, að þessu verði reddað síðar, er eins og verið sé að reyna að skapa einhvern hvata til þess að umræðan verði sem minnst. Og jafnvel, svo að ég segi það hreint út, að gert verði mögulegt að útmála fólk sem er að ræða um málið, er að taka það alvarlega eins og það lítur út núna, á þann hátt að það sé bara með eitthvert vesen að óþörfu af því að þessu verði öllu breytt.

Að sjálfsögðu ræðum við málið eins og það er lagt fram af hálfu nefndarinnar eftir umfjöllun. Við höfum ekkert annað í höndunum. Okkur ber skylda til að láta afstöðu okkar í ljós og til að fara yfir málin eins og þau eru lögð fram, ekki eins og þau gætu mögulega litið út síðar.