Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:41]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég tek undir með hv. þm. Guðbrandi Einarssyni, það er með ólíkindum að hlusta á hverja ræðuna á fætur annarri þar sem þingmenn lýsa því að við ráðum ekki við stöðuna. Auðvitað ráðum við við hana. Verkefnið er kannski ekki alltaf einfalt en við ráðum við það af því að þetta er spurning um ákvörðun og eitthvað sem okkur ber að gera, eitthvað sem við verðum að gera. Meðan við höfum dyrnar opnar fyrir öllu flóttafólki frá Úkraínu þá ber okkur að hafa úthaldið, pólitískt, efnahagslegt og samfélagslegt, í það að taka á móti fólki.

Ég er þeirrar skoðunar að Ísland þurfi á svo mörgu fólki að halda og að það sé okkur aðeins til gæfu að hingað vilji flytja fólk frá öðrum löndum og setjast að. Ég sé ekki í því þann vanda sem sumir aðrir sjá. Það verður auðvitað alltaf að bjóða fólki upp á aðlögun. Það þarf að bjóða upp á aðlögun í skólum, það þarf að nýta krafta fólks til fullnustu. En það er auðvitað bara þannig að á endanum erum við mjög ríkt og stöndugt samfélag. Það eitt setur okkur á herðar ríkari skyldur en þeirra sem eru t.d. miklu lægra á OECD-listanum, þar eru reyndar allar ríku þjóðirnar, eða á listanum yfir ríkustu þjóðir í heimi. Það er hluti af þeim veruleika sem við búum í. En burt séð frá því þá er ég sjálf einlæglega þeirrar skoðunar að við þurfum á fleira fólki að halda, flóttafólki, alls konar innflytjendum, af því að það muni gera samfélag okkar betra.