Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:47]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Í umræðum um þetta mál hefur ráðherra og hv. þingmönnum oft verið tíðrætt um Venesúela og umsóknir um alþjóðlega vernd þaðan. Það er svo sannarlega rétt að umsóknum um hæli frá Venesúela hefur sannarlega fjölgað frá því að kærunefnd útlendingamála komst að þeirri niðurstöðu að Venesúela væri ekki öruggt land. Í þeim úrskurði kom m.a. fram, með leyfi forseta:

„Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gaf út leiðbeiningar vegna umsókna venesúelskra ríkisborgara um alþjóðlega vernd árið 2019. Í leiðbeiningunum kemur fram að það sé mat stofnunarinnar að meirihluti venesúelskra ríkisborgara hafi ríka þörf fyrir vernd vegna ástandsins í Venesúela. Atburðir undanfarinna ára hafi raskað allsherjarreglu í landinu og sé líf þeirra, öryggi og frelsi því í hættu. Í ljósi ástandsins hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatt aðildarríki til þess að senda venesúelska ríkisborgara ekki aftur til landsins.“

Með öðrum orðum: Kærunefnd útlendingamála var einungis að fylgja tilmælum og mati Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna á því hvernig ástandið er í Venesúela. Samkvæmt upplýsingum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hefur 7,1 milljón manna flúið landið á undanförnum árum, þar af hafa yfir sex milljónir sest að í öðrum löndum í Suður-Ameríku.

Af hverju er þetta fólk að leita til Íslands? Jú, það er nefnilega þannig að þeir sem hafa efni á því geta keypt sér flug frá Venesúela eða einum af nágrannaríkjum þess til Spánar og þaðan beint til Íslands. Samkvæmt núgildandi reglum Schengen er þess ekki krafist af ríkisborgurum Venesúela að þeir fái vegabréfsáritun til að heimsækja lönd á Schengen-svæðinu og þetta þýðir að frekar greið leið er fyrir fólk sem hefur þess kost að komast til Íslands og annarra landa innan Schengen og sækja þar með um alþjóðlega vernd. Ef markmiðið væri að fækka hælisleitendum frá Venesúela gæti dómsmálaráðherra fyrir löngu verið búinn að leggja það til við Evrópusambandið og hin Schengen-löndin að 8. gr. Schengen-samkomulagsins, sem tekur einmitt á því hvað eigi að gera þegar lönd verða vör við stóraukinn fjölda hælisumsókna fólks frá löndum þar sem Schengen er með undanþágur frá áritun. Það væri áhugavert að heyra skýringar ráðuneytisins á því af hverju slíkt hefur ekki verið gert.

Ráðherra hefur einnig talað sérstaklega, og reyndar aðrir hv. þingmenn líka, um að fólk frá Sýrlandi kæmi með nýleg vegabréf frá Venesúela. Í þessu tilviki virðist stjórnarmeirihlutinn og ráðherra vera viss um að þessi vegabréf hafi verið keypt dýrum dómum. Hann áttar sig kannski ekki á því að í Venesúela býr tæp milljón manns frá Sýrlandi sem flutti þangað á síðustu öld. Kannski er það frekar vandamál í augum ráðherra að þarna er að koma til landsins fólk með uppruna frá Miðausturlöndum og jafnvel með aðra trú. Það er kannski mesti glæpurinn sem þetta fólk hefur framið í hans augum.

Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun voru nærri 90% þeirra sem fá hér alþjóðlega vernd og koma frá Venesúela komin með vinnu innan eins árs frá því að dvalarleyfi er gefið út. Þetta er fólk sem vill vinna og vill ekki að vera baggi á samfélaginu.